Nýfjárfesting
Nýfjárfesting var fyrst heimiluð 30. október 2009 sem var fyrsta skrefið í losun gjaldeyrishafta. Síðan hafa alls verið skráðar 509 nýfjárfestingar fyrir samtals 58,6 milljarða króna.
Af þeirri fjárhæð hafa 154 nýfjárfestingar verið losaðar að fullu, fyrir jafnvirði 18,1 milljarð króna í erlendum gjaldeyri og 32 nýfjárfestingar verið losaðar að hluta fyrir jafnvirði 6,6 milljarða í erlendum gjaldeyri. Alls hefur verið samþykkt losun á 193 nýfjárfestingum í heild eða hluta fyrir samtals 24,7 milljarða króna. Rétt er að benda á að hver fjárfestir getur haldið á fleiri en einni nýfjárfestingu.
Samkvæmt 2. gr. b og 20. gr. h - í skilmála um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið er heimilt að afsala sér heimild til sölu nýfjárfestingar og kaupa á erlendum gjaldeyri fyrir söluandvirði fjárfestingar gegn því að skráð nýfjárfesting sé ígildi „álandshluta“ uppgjörs vegna þátttöku fjárfestis í fyrrnefndri fjárfestingarleið. Þannig hefur 105 nýfjárfestingum af þeim 193 sem hafa verið losaðar verið afsalað vegna þátttöku í fjárfestingarleið, alls að fjárhæð 12,5 milljarðar, en 88 nýfjárfestingar af 193 verið losaðar með hefðbundnum hætti, þ.e.a.s. að sala fjárfestingar hafi hlotið staðfestingu Seðlabankans, skv. 5. mgr. 13. gr. m og söluandvirði fjárfestingarinnar falli ekki undir takmarkanir laganna um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa.
Nánari upplýsingar er að finna hér.