Væntingakönnun markaðsaðila
Seðlabanki Íslands hóf í upphafi árs að gera ársfjórðungslegar kannanir á væntingum markaðsaðila til ýmissa hagstærða, svo sem verðbólgu og vaxta. Dagana 5.-9. nóvember sl. framkvæmdi Seðlabankinn könnunina í fjórða skiptið. Leitað var til 36 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 23 aðilum og var svarhlutfallið því 64%.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni sýna niðurstöður að markaðsaðilar vænta þess að verðbólga verði 4,5% á fjórða ársfjórðungi þessa árs og 4,2% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs, sem er um 0,3 og 0,7 prósentum minni verðbólga en þeir gerðu ráð fyrir í síðustu könnun bankans. Jafnframt sýna niðurstöður að markaðsaðilar vænta þess að ársverðbólga verði 4,8% bæði eftir eitt og tvö ár en 4,5% að meðaltali á næstu fimm árum, sem er svipuð niðurstaða og í síðustu könnun. Markaðsaðilar vænta þess að gengi krónu gagnvart evru verði 167 krónur eftir eitt ár, en það er hækkun á gengi evrunnar um 12 krónur frá síðustu könnun en svipuð niðurstaða og í könnunum frá því í maí og febrúar á þessu ári.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að veðlánavextir Seðlabankans verði 6,0% í lok þessa árs og er það óbreytt frá síðustu könnun. Að auki vænta markaðsaðilar að veðlánavextir verði 6,5% eftir eitt ár en það eru 0,25 prósentum hærri vextir en í síðustu könnun bankans. Í niðurstöðum könnunarinnar taldi meirihluti markaðsaðila taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt þegar könnunin var framkvæmd.
Sjá væntingakönnunina hér: Væntingar markaðsaðila (Excel - skjal)
Sjá ennfremur hér: Væntingakönnun markaðsaðila