Moody‘s staðfestir lánshæfiseinkunnir Íslands
Matsfyrirtækið Moody‘s hefur staðfest lánshæfiseinkunnina Baa3/P-3 fyrir langtíma- og skammtímaskuldbindingar Ríkissjóðs Íslands . Horfur eru ennþá neikvæðar.
Staðfesting á lánshæfismatinu í dag endurspeglar eftirfarandi lykilatriði:
Íslenska hagkerfið, opinber fjármál og þróun skulda hins opinbera eru talin vera á réttri leið. Búist er við að efnahagsleg endurreisn haldi áfram á viðunandi hraða þrátt fyrir áhættu vegna afturkipps í ESB. Opinber fjármál eru á skynsamlegri braut, en verulega hefur dregið úr halla á ríkissjóði. Í nýlegu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir enn frekari lækkun fjárlagahallans. Það mun leiða til þess að hátt hlutfall opinberra skulda af landsframleiðslu tekur að lækka frá og með árinu 2012.
Á móti kemur að áhætta fram á við er mikil og meiri en fyrir önnur lönd með svipað lánshæfismat en stöðugar horfur. Af þeim sökum telur Moody‘s ekki ástæðu til að hverfa frá neikvæðum horfum þrátt fyrir þann árangur sem getið er um að ofan. Það skal sérstaklega nefnt að hlutfall erlendra skulda hins opinbera er mjög hátt. Skuldastaðan takmarkar verulega möguleika stjórnvalda til að takast á við áföll í framtíðinni. Slík áföll geta stafað af (1) miklu útflæði fjármagns og óstöðugleika sem gæti hlotist af afnámi hafta, (2) neikvæðri niðurstöðu af málarekstri vegna Icesave-deilunnar eða (3) auknum vandamálum í bankakerfinu sem enn er veikburða.
Moody‘s hefur lækkað þak fyrir skuldabréf innlendra aðila í erlendri mynt í Baa3 og hefur staðfest þak fyrir innlán í erlendri mynt í Baa3. Þak fyrir skuldabréf og innlán í krónum hefur verið lækkað í Baa2.
Sjá hér frétt Moody's: Moody's affirms Iceland's Baa3/P-3 ratings with negative outlook