logo-for-printing

04. janúar 2013

Hlé á reglulegum gjaldeyriskaupum

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að gera hlé á reglulegum gjaldeyriskaupum bankans af viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði. Frá septembermánuði árið 2010 hefur bankinn keypt vikulega gjaldeyri á markaði, fyrst hálfa milljón evra af hverjum viðskiptavaka og frá júlí 2012 eina milljón evra, sem samsvarar u.þ.b. hálfum milljarði króna í viku hverri. Á heildina litið námu gjaldeyriskaup Seðlabankans á árinu 2012 u.þ.b. 20 ma.kr. en á móti kom að bankinn seldi gjaldeyri fyrir 3 ma.kr. í inngripum snemma í mars 2012 og á síðasta degi ársins.

Seðlabankinn telur að gengislækkun krónunnar á síðustu vikum ársins hafi verið óæskilega mikil, sérstaklega í ljósi þess að hún tengdist að verulegu leyti tímabundnum þáttum vegna áramótastöðu fjármálafyrirtækja. Auk þess hefur uppgreiðsla erlendra skulda einkaaðila veikt krónuna á undanförnum mánuðum. Seðlabankinn telur því eðlilegt að gera hlé á reglulegum gjaldeyriskaupum bankans. Bankinn telur eftir sem áður að þegar aðstæður leyfa sé nauðsynlegt að kaupa á ný nægan gjaldeyri á millibankamarkaði til þess að standa undir vaxtagreiðslum vegna erlendra skulda ríkissjóðs og til lengri tíma litið telur bankinn æskilegt að hlutfall óskuldsetts gjaldeyrisforða hækki.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600. 

 

Frétt nr. 1/2013
4. janúar 2013
 

 

Til baka