Sigríður Benediktsdóttir í kerfisáhætturáð Danmerkur
Sigríður Benediktsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands hefur verið skipuð í nýstofnað kerfisáhætturáð Danmerkur.
Það er Annette Vilhelmsen atvinnu- og nýsköpunarráðherra Danmerkur sem skipar kerfisáhætturáðið, en það er skipað 10 einstaklingum, þ.e. fulltrúum Seðlabanka Danmerkur, Fjármálaeftirlits Danmerkur, ráðuneyta á sviði efnahags-, atvinnu- og fjármála og óháðum sérfræðingum. Sigríður er skipuð í ráðið sem slíkur. Seðlabankastjóri Danmerkur er formaður ráðsins.
Hlutverk kerfisáhætturáðs Danmerkur er að greina og hafa eftirlit með fjárhagslegum áhættuþáttum í Danmörku, vara við hættu á því að kerfisáhætta sé að myndast, koma með tillögur til ríkisstjórnar um lagabreytingar á sviði fjármála sem geta dregið úr því að kerfisáhætta myndist og gefa skýrslu til Kerfisáhætturáðs Evrópu (ESRB).
Sigríður Benediktsdóttir hóf störf í Seðlabanka Íslands fyrir rúmu ári, eða 1. janúar 2012, en þar áður var hún aðstoðarmaður deildarforseta við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Sigríður lauk BS-prófi í hagfræði í Háskóla Íslands 1995 og BS-prófi í tölvunarfræði frá sama skóla 1998. Hún lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale-háskóla í maí 2005.
Frá árinu 2007 starfaði Sigríður sem kennari og aðstoðarmaður deildarforseta við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Samhliða því hún stundaði rannsóknir á sviði fjármálahagfræði, með áherslu á fjármálamarkaði. Hún starfaði sem hagfræðingur hjá Seðlabanka Bandaríkjanna á árunum 2005-2007. Sigríður var skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið árið 2008.
Skipun Sigríðar Benediktsdóttur í kerfisáhætturáð Danmerkur er mikil viðurkenning fyrir hana persónulega, en einnig viðurkenning á því starfi sem undanfarið hefur átt sér stað á þessu sviði í Seðlabanka Íslands. Seðlabanki Íslands bindur miklar vonir við að seta Sigríðar í kerfisáhætturáði Danmerkur muni stuðla að miðlun reynslu á milli landanna og gagnast Íslandi við uppbyggingu eftirlits með og viðbrögðum við kerfisáhættu í fjármálakerfinu.
Nánari upplýsingar veita Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Sigríður Benediktsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs í síma 5699600.
Nr. 6/2013
21. febrúar 2013