14. mars 2013
Ritgerð um hvort besta leiðin hafi verið valin út úr bankahruninu
Í röð rannsóknarritgerða Seðlabanka Íslands er komin út rannsóknarritgerð nr. 62, „The Icelandic banking collapse: was the optimal policy path chosen?“, eftir Þorstein Þorgeirsson og Paul van den NoordÞessi hagrannsókn beinist að aðgerðum íslenskra stjórnvalda í kjölfar hruns íslensku bankanna haustið 2008 á grundvelli sviðsmynda sem hafa að geyma frávik frá þeirri leið sem farin var. Sú leið hefur reynst mikilvæg fyrir endurreisn efnahagslífsins en um leið er ljóst að stjórnvöld stóðu frammi fyrir öðrum valkostum við það að bregðast við margþættum vandamálum sem komu upp, og hefðu getað haft mikil áhrif á fjármál hins opinbera og hagvöxt. Rannsóknin byggir á tveimur samverkandi þjóðhagslíkönum við að meta þær aðgerðir sem gripið var til og á þeim grundvelli útbúa fráviksdæmi (e. counter-factual scenarios) um það hvernig þróunin hefði verið ef aðgerðirnar hefðu verið aðrar. Fjórar sviðsmyndir er útbúnar á grundvelli þess hvernig hefði mögulega verið hægt að taka á bankahruninu: i) innleiða hagvaxtarhvetjandi stjórn fjármála hins opinbera, ii) að leyfa gengi íslensku krónunnar að falla án þess að grípa til gjaldeyrishafta, iii) að greiða vaxtakostnaðinn vegna fyrsta Icesave samningsins, eða iv) að bjarga bönkunum í heild sinni að fordæmi Íra. Keyrslur í þjóðhagslíkönum eru unnar til að meta áhrif ólíkra aðgerða á sviði opinberra fjármála á hagvöxt, atvinnuleysi og aðrar þjóðhagsbreytur yfir tímabilið 2008-2025. Niðurstöðurnar eru bornar saman við þá leið sem farin var. Að svara þessari spurningu er áhugavert fyrir Ísland en einnig fyrir önnur lönd sem tókust á við svipuð vandamál en brugðust við á annan hátt.
Rannsóknarritgerðir Seðlabanka Íslands má nálgast hér: Rannsóknarritgerðir