Úthlutun styrkja úr menningarsjóði
Í dag fór fram önnur úthlutun styrkja úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra. Seðlabanki Íslands stofnaði til menningarstyrksins í nafni Jóhannesar í tilefni af 50 ára afmæli Seðlabankans árið 2011 og þess að Þjóðhátíðarsjóður hafði þá lokið störfum.
Alls bárust 38 styrkumsóknir og ákvað úthlutunarnefnd að veita tveimur umsækjendum styrk, samtals að fjárhæð tvær milljónir króna. Að þessu sinni hljóta styrk þau Bjarki Þór Jónsson, sem hlýtur styrk að fjárhæð ein milljón króna til verkefnisins Upphaf, þróun og varðveisla íslenskra tölvuleikja, og Margrét Gunnarsdóttir, sem einnig hlýtur eina milljón króna í styrk til verkefnisins Þjóðbúningur verður til. Klæðaburður Íslendinga í aldanna rás.
Bjarki Þór Jónsson sótti um styrk í sjóðinn til að vinna verkefni sitt um upphaf, þróun og varðveislu íslenskra tölvuleikja. Verkefnið miðar að því að varðveita gögn sem tengjast íslenskum tölvuleikjum og tölvuleikjahönnun frá upphafi til dagsins í dag.
Verkefni Margrétar Gunnarsdóttur miðar að því að ljúka rannsókn á klæðaburði fólks á Íslandi í aldanna rás og tengja við menningarsögulega þróun landsins, auk þess að gefa út myndskreytt ritverk með niðurstöðum verkefnisins.
Formaður úthlutunarnefndar er Hildur Traustadóttir, fulltrúi í bankaráði Seðlabanka Íslands, en aðrir í nefndinni eru Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.
Nr. 12/2013
5. apríl 2013