logo-for-printing

02. júlí 2013

Útboðsáætlun

Stefnt er að samhliða útboðum á eftirfarandi dögum þar sem Seðlabanki Íslands kaupir erlendan gjaldeyri, annars vegar samkvæmt fjárfestingarleið og hins vegar í skiptum fyrir ríkisverðbréf. Á sömu dögum er jafnframt stefnt að útboðum þar sem bankinn býðst til að kaupa íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri.

3. september 2013
15. október 2013
19. nóvember 2013
17. desember 2013

Seðlabankinn áskilur sér rétt til að fjölga eða fækka útboðsdögum frá því sem að ofan greinir.

Markmið útboðanna er að selja krónur til aðila sem eru tilbúnir að eiga þær í a.m.k. 5 ár með kaupum á ríkisverðbréfum eða fjárfestingum samkvæmt fjárfestingarleið sem kynnt var 18. nóvember 2011. Jafnframt gera útboðin fjárfestum kleift að selja krónueignir sínar með skipulögðum hætti ef þeir svo kjósa. Markmiðið með viðskiptunum er að auðvelda losun fjármagnshafta án þess að það valdi óstöðugleika í gengis- og peningamálum eða tefli fjármálastöðugleika í hættu. Aðgerðinni er einnig ætlað að fjármagna ríkissjóð á hagkvæman hátt til langs tíma og draga úr endurfjármögnunarþörf á meðan losað er um fjármagnshöftin.

Útboðin ásamt skilmálum verða nánar auglýst síðar. Sé ekki annað tilkynnt sérstaklega rennur umsóknarfrestur um þátttöku í fjárfestingarleið út 14 virkum dögum fyrir hvert útboð.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í síma 5699600.

Nr. 24/2013
2. júlí 2013 

Til baka