Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í lok annars ársfjórðungs 2013
Sjá hér fréttina í heild með töflu um undirliggjandi erlenda stöðu þjóðarbúsins: Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í lok annars ársfjórðungs 2013Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2013 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Til frekari upplýsinga birtir Seðlabankinn samhliða mat á undirliggjandi hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins. Við mat á undirliggjandi stöðu er lagt mat á þá stöðu sem mun birtast þegar innlendar og erlendar eignir innlánsstofnana í slitameðferð hafa verið seldar og andvirði þeirra ráðstafað til kröfuhafa. Jafnframt er horft framhjá nokkrum innlendum fyrirtækjum, öðrum en fjármálafyrirtækjum, sem unnið er að slitum á (sjá nánari útskýringar í Sérriti 9: Undirliggjandi erlend staða og greiðslujöfnuður, sem gefið var út 18. mars sl.). Við mat á undirliggjandi hreinni stöðu þjóðarbúsins er ekki lengur horft framhjá áhrifum lyfjafyrirtækisins Actavis (sjá nánari umfjöllun í fréttatilkynningu Seðlabankans um undirliggjandi erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok fyrsta ársfjórðungs 2013).
Við mat á eignum innlánsstofnana í slitameðferð er notað bókfært virði þeirra samkvæmt uppgjörum slitastjórnanna. Við skiptingu kröfuhafa í innlenda og erlenda aðila er farið eftir samþykktum kröfum samkvæmt kröfuhafaskrám, greint niður á undirliggjandi eigendur. Rétt er að geta þess að óvissa er um virði eigna innlánsstofnana í slitameðferð og um hlutfallslega skiptingu kröfuhafa í innlenda og erlenda. Þættir svo sem uppgjörsgengi gjaldmiðla, skuldajafnanir og niðurstöður úr ágreiningi um tilteknar kröfur munu skera endanlega úr um stöðu búanna og þar með um áhrif uppgjöranna á erlenda stöðu þjóðarbúsins.
Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins
Hrein staða við útlönd var neikvæð um 7.885 ma.kr. eða 458% af vergri landsframleiðslu við lok annars ársfjórðungs 2013. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð var staðan neikvæð um 464 ma.kr. eða 27% af vergri landsframleiðslu. Talið er að slit innlánsstofnana í slitameðferð hafi neikvæð áhrif á hreinu stöðuna sem nemur 43% af vergri landsframleiðslu en önnur fyrirtæki sem unnið er að slitum á hafi jákvæð áhrif sem nemi 5% af vergri landsframleiðslu. Undirliggjandi erlend staða miðað við reiknað uppgjör innlánsstofnanna í slitameðferð og án fyrirtækja sem unnið er að slitum á er því metin neikvæð um 65% af vergri landsframleiðslu. Þar sem ekki er lengur horft framhjá áhrif Actavis er þessi tala aðeins samanburðarhæf við birtingu Seðlabankans á undirliggjandi erlendri stöðu í lok fyrsta ársfjórðungs þessa árs. Þá var staðan einnig metin neikvæð um 65% af vergri landsframleiðslu.
Nánari upplýsingar veitir Eggert Þ. Þórarinsson á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.