Seðlabanki Íslands sendir greinargerð til ríkisstjórnar
Í yfirlýsingu ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands 27. mars 2001 var kveðið á um að víki verðbólga meira en 1½ prósent frá verðbólgumarkmiði sem nú er 2½% bæri bankanum að senda greinargerð til ríkisstjórnar þar sem fram kæmi hver ástæða frávikanna væri, hvernig bankinn hygðist bregðast við og hve langan tíma hann teldi það taka að ná verðbólgumarkmiðinu að nýju. Greinargerðina skyldi birta opinberlega.
Samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands, sem birt var 28. ágúst, mældist tólf mánaða verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs 4,3% í ágúst, sem er meira en 1½ prósentu frá verðbólgumarkmiðinu. Í samræmi við ákvæði yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans frá mars 2001 sendi seðlabankastjóri fjármála- og efnahagsráðherra greinargerð bankans síðdegis í gær og fylgir hún hér með.