Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2013
Ársfundur og fundur fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2013 voru haldnir dagana 11. -13. október. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti fundina, en hann er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Auk þess átti seðlabankastjóri fundi með öðrum seðlabönkum, alþjóðlegum fjármálastofnunum, matsfyrirtækjum og stjórnendum og starfsfólki AGS. Þá sótti seðlabankastjóri fund stýrinefndar sem hann á sæti í um alþjóðlegar reglur um fjármagnshreyfingar og skipulagt skuldauppgjör.
Ársfundarræða kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja var flutt af seðlabankastjóra Eistlands, Ardo Hansson. Fulltrúi kjördæmisins í fjárhagsnefnd AGS var að þessu sinni fjármálaráðherra Litháen, Rimantas Šadžius. Ársfundarræða og yfirlýsing kjördæmisins í fjárhagsnefnd AGS eru birtar í heild sinni á vefsíðum Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og má nálgast hér að neðan.
Í ályktun fjárhagsnefndar AGS kemur fram að hagvöxtur á heimsvísu hefur verið að aukast á ný. Þrátt fyrir það er hagvöxtur hægur og ýmsir áhættuþættir eru enn til staðar. Vísbendingar eru um að efnahagur þróaðra ríkja sé að taka við sér en á sama tíma hefur hægt á vexti í mörgum nýmarkaðsríkjum. Hagvöxtur í þróunarríkjum hefur hins vegar verið stöðugur.
Ársfundarræða Ardo Hansons seðlabankastjóra Eistlands (PDF-skjal)