Upplýsingarit Seðlabankans um verðbréfaeign
Seðlabanki Íslands hefur tekið þátt í alþjóðlegri könnun á landaskiptingu erlendrar verðbréfaeignar á árinu 2012, að frumkvæði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar frá árinu 2001. Niðurstöður sýna meðal annars að erlend verðbréfaeign innlendra aðila hér á landi nam 1.081,3 ma.kr. í lok árs 2012 og hafði aukist um 164,4 ma.kr. frá árinu á undan, eða um 18%.
Niðurstöður könnunarinnar sýna að erlend verðbréfaeign innlendra aðila var mest í Bandaríkjunum, 247,4 ma.kr., en þar á eftir í Lúxemborg, 165,3 ma.kr. Eins og í fyrri könnunum áttu íslenskir lífeyrissjóðir mest af erlendum verðbréfaeignum, en eign þeirra nam 548,8 ma.kr. Eign þeirra hafði aukist um 79,9 ma.kr. á árinu og nam 548,8 ma.kr. í lok árs 2012. Innlánsstofnanir í slitameðferð áttu næst mest af erlendri verðbréfaeign, eða 356,8 ma.kr., og höfðu aukið hlut sinn um 95,4 ma.kr. á milli ára.
Að þessu sinni var innlend verðbréfaeign erlendra aðila einnig könnuð, en það er í fyrsta sinn sem kannað er sérstaklega hvernig landaskiptingu eigenda innlendra bréfa er háttað. Innlend verðbréfaeign erlendra aðila nam 819,1 ma.kr. í árslok 2012. Eign þeirra var að mestu leyti í langtímaskuldaskjölum, eða um 740,6 ma.kr. Þeir erlendu aðilar sem mest áttu af verðbréfaeignum hérlendis voru skráðir í Lúxemborg. Þeir áttu um 35% af innlendum verðbréfum í eigu erlendra aðila, en þar á eftir komu aðilar skráðir í Bandaríkjunum með um 34%.
Sjá hér: Upplýsingarit nr. 3: Könnun á verðbréfaeign í árslok 2012.pdf