Seðlabankastjóri í Lundúnum: Tók þátt í fundum og hélt erindi á málstofu
Már Guðmundsson seðlabankastjóri hélt í dag erindi á málstofu sem haldin var í Mansion House í Lundúnum. Málstofan bar nafnið Iceland: 5 years after the perfect economic storm (Ísland: 5 árum eftir hinn fullkomna efnahagsstorm).
Á málstofunni héldu Lord Mayor and Alderman Roger Gifford, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Cyrus Ardalan frá Barclays banka erindi auk seðlabankastjóra. Erindi seðlabankastjóra bar heitið: Iceland‘s economic recovery, financial reconstruction and current policy challenges (Efnahagsbati á Íslandi, endurreisn fjármálakerfisins og áskoranir í efnahagsstjórn).
Í erindi sínu á málstofunni í dag fór seðlabankastjóri yfir rætur efnahagskreppunnar, þá efnahagsstefnu sem fylgt var í kjölfar falls bankanna, efnahagsbata hér á landi og endurreisn fjármálakerfisins. Jafnframt gerði seðlabankastjóri grein fyrir þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir um þessar mundir varðandi það annars vegar að leysa gjaldeyrisjafnaðarkreppu landsins og losa fjármagnshöft og hins vegar að tryggja varanlegan hagvöxt samfara lítilli verðbólgu.
Í gær átti seðlabankastjóri fund með Mark Carney seðlabankastjóra í Bretlandi og í dag átti hann fund með fulltrúum í Evrópusambandsnefnd bresku lávarðadeildarinnar varðandi þá lærdóma sem draga mætti af íslenska bankahruninu fyrir þróun nýs regluverks um bankastarfsemi innan Evrópusambandsins (eldri ræða seðlabankastjóra um það efni er aðgengileg hér: „Að hve miklu leyti taka umbótatillögur ESB og annarra alþjóðlegra aðila á vandanum við bankastarfsemi yfir landamæri?“).
Meðfylgjandi er skjal með texta og myndum sem seðlabankastjóri studdist við og sýndi fundargestum við flutning erindisins í Manison House í Lundúnum. Skjalið er á ensku og ber heitið Iceland's economic recovery, financial reconstruction and current policy challenges. Sjá hér: Erindi seðlabankastjóra í Lundúnum 31. október 2013.pdf