Yfirlýsing peningastefnunefndar 6. nóvember 2013
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.
Samkvæmt þjóðhagsspá Seðlabankans eru horfur á að hagvöxtur í ár verði nokkru meiri en bankinn spáði í ágúst, eða 2,3%, en næstu tvö árin er gert ráð fyrir svipuðum vexti og áður. Batinn á vinnumarkaði heldur áfram af auknum krafti og hefur heildarvinnustundum ekki fjölgað jafn mikið á einu ári frá árinu 2007.
Eftir að hafa aukist nokkuð á þriðja fjórðungi ársins hefur verðbólga minnkað á ný. Samkvæmt spá bankans eru horfur á hægfara hjöðnun verðbólgu á komandi misserum. Hún verður minni á næstunni en áður var reiknað með en verðbólguhorfur til ársins 2016 eru í stórum dráttum svipaðar og áður var spáð. Gert er ráð fyrir að verðbólga hnígi að markmiði undir lok árs 2015. Það er hægfara hjöðnun og sem fyrr næm fyrir þróun gengis og launa á næstu misserum.
Viðskiptakjör Íslands hafa versnað á undanförnum misserum og hefur það rýrt viðskiptaafgang og sett þrýsting á gengi krónunnar. Litið fram á við er óvissa um áhrif þungrar greiðslubyrðar erlendra lána, uppgjöra búa fallinna banka og losunar fjármagnshafta á gengisþróun.
Nú um stundir skiptir þó óvissa vegna komandi kjarasamninga mestu máli. Í spá Seðlabankans er sem fyrr gert ráð fyrir launahækkunum í kjarasamningum sem eru umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiðinu og er þá byggt á sögulegri reynslu. Verði launahækkanir í samræmi við spána er líklegt að nafnvextir bankans muni að óbreyttu hækka í framhaldinu, sérstaklega ef slakinn í þjóðarbúskapnum heldur áfram að minnka. Launahækkanir umfram það auka líkur á vaxtahækkunum enn frekar. Verði launahækkanir hins vegar í samræmi við verðbólgumarkmið mun verðbólga að öðru óbreyttu hjaðna hraðar en gert er ráð fyrir í spánni og vextir verða lægri en ella. Stefnan í ríkisfjármálum mun einnig hafa áhrif á aðhaldsstig peningastefnunnar. Því er mikilvægt að eftir meðferð Alþingis á frumvarpi til fjárlaga verði aðhald í ríkisfjármálum að minnsta kosti jafn mikið og boðað er í frumvarpinu.
Laust taumhald peningastefnunnar hefur á undanförnum misserum stutt við efnahagsbatann. Áfram gildir að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með breytingum nafnvaxta Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, sem ræðst að miklu leyti af þróun launa og gengishreyfingum krónunnar.
Nr. 37/2013
6. nóvember 2013
Vextir Seðlabanka Íslands verða eftir ákvörðunina sem hér segir:
Daglánavextir: 7,00%
Vextir af lánum gegn veði til sjö daga: 6,00%
Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum: 5,75%
Innlánsvextir: 5,00%