logo-for-printing

28. nóvember 2013

Í dag: Honohan, Geir Haarde, Franek Rozwadowski og Már Guðmundsson um lærdómana af fjármálakreppu á Írlandi og Íslandi

Seðlabanki Íslands heldur í dag morgunfund undir yfirskriftinni „Fjármálakreppa á Írlandi og Íslandi: hverjir eru lærdómarnir fimm árum seinna?“ í Norðurljósasal Hörpu frá kl. 09:30 – 12:15. Fundurinn fer fram á ensku. Ræður og ávörp flytja Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Patrick Honohan, seðlabankastjóri Írlands, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og Franek Rozwadowski, fyrrverandi fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Hið alþjóðlega bankakerfi sem byggt hafði verið upp á Íslandi á fyrstu árum nýrrar aldar hrundi haustið 2008. Samdráttur var þá þegar í uppsiglingu. Um sömu mundir voru írskir bankar í miklum erfiðleikum og horfur um írska efnahagsþróun næstu ára fóru hríðversnandi. Skömmu áður hafði hin alþjóðlega fjármálakreppa náð hástigi í framhaldi af falli Lehman Brothers bankans og heimsbúskapurinn var á leið inn í djúpan samdrátt.

Á morgunfundinum verður rætt um hvernig tvö lítil lönd með stór bankakerfi, Írland og Ísland, brugðust við þessum atburðum og hvernig þeim hefur reitt af síðan. Spurt verður um þá lærdóma sem nú fimm árum síðar er hægt að draga varðandi viðbrögð við erfiðleikum stórra alþjóðlegra banka í litlum löndum. Einnig verður spurt um hvaða lærdóma megi draga af þessum atburðum varðandi uppbyggingu fjármálakerfis og hagstjórn í litlum opnum hagkerfum?

Dagskrá fundarins verður þannig að frá 9:30-10:00 hefst skráning.

Frá 10:00 til 11:40 verða ræður og ávörp flutt. Ræður og ávörp flytja Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Patrick Honohan, seðlabankastjóri Írlands, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og Franek Rozwadowski, fyrrverandi fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Frá 11:40 til 12:15 fara fram pallborðsumræður.

Í lokin er boðið upp á léttan hádegisverð fyrir fundargesti.

Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn, en það er gert á heimasíðu bankans https://www.sedlabanki.is/.

Patrick Honohan seðlabankastjóri Írlands    Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra    Franek Rozwadowski, fyrrverandi fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi    Már Guðmundsson seðlabankastjóri

 

Ræða Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á morgunverðarfundi í Hörpu

 

Til baka