logo-for-printing

19. mars 2014

Notkun sýndarfjár getur fylgt mikil áhætta

Bygging Seðlabanka Íslands

Sýndarfé (e. virtual currency) má lýsa sem stafrænum skiptimiðli (e. medium of exchange). Bitcoin er þekkt dæmi um sýndarfé og nú berast fréttir af „sérstöku sýndarfé fyrir Ísland“, þ.e. Auroracoin. 

Hvorki Auroracoin né Bitcoin er viðurkenndur lögeyrir eða gjaldmiðill í skilningi íslenskra laga. Vert er að minna á að hér á landi hefur Seðlabanki Íslands einkarétt til að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem getur gengið manna á milli í stað peningaseðla og löglegrar myntar, samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Sýndarfé er ekki heldur rafeyrir í skilningi laga nr. 17/2013 um útgáfu og meðferð rafeyris og samevrópsks regluverks, enda ekki um kröfu á hendur útgefanda að ræða. 

Notkun sýndarfjár mun jafnframt falla utan gildissviðs laga nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu. Að baki útgáfu Auroracoin stendur ekki starfsleyfisskyldur aðili háður eftirliti fjármálaeftirlitsstofnunar, frekar en að baki Bitcoin og sambærilegs sýndarfjár, eftir því sem næst verður komist. 

Notkun Auroracoin til greiðslna kemur til með að byggja á samkomulagi milli greiðenda og viðtakenda greiðslna; uppgjörsáhætta hvílir alfarið á handhafa sýndarfjár. Notendur Auroracoin (þ.m.t. neytendur) fá m.ö.o. ekki notið þeirrar brjóstvarnar sem viðskiptavinir greiðsluþjónustuveitenda njóta samkvæmt gildandi lögum. Notendur Auroracoin njóta ekki verndar efnisreglna laga nr. 120/2011 og 17/2013, sem m.a. kveða á um innlausnarskyldu og ábyrgð aðila þegar óheimilaðar greiðslur eru annars vegar eða innstæðutryggingar líkt og innlán í fjármálafyrirtækjum. Verðgildi sýndarfjár byggir eingöngu á framboði og eftirspurn og að gefnu tilefni skal áréttað að íslensk stjórnvöld eru ekki ábyrg fyrir verðgildi eða stöðugleika Auroracoin. 

Stjórnvöld og löggjafarþing hvarvetna standa nú frammi fyrir því krefjandi viðfangsefni að eyða lagalegu tómarúmi sem að sýndarfé snýr. Á vettvangi ESB er unnið að lausn sem væntanlega mun felast í breytingum á samevrópsku regluverki. 

Seðlabanki Íslands hefur fylgst með þróun rafrænnar greiðslumiðlunar á grundvelli 4. gr. laga nr. 36/2001, þ.m.t. þróun sýndarfjár, og leggur á hverjum tíma mat á möguleg áhrif á greiðslukerfi og fjármálakerfið almennt. Fram til þessa hefur sýndarfé lítið verið notað í greiðslumiðlun á Íslandi. Það er mat Seðlabankans nú, að notkun og/eða viðskipti með sýndarfé hafi ekki áhrif á fjármálastöðugleika. 

Þess skal einnig getið að kaup og sala sýndarfjár hefur verið til athugunar innan Seðlabankans í tengslum við eftirlit með framkvæmd laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Það er mat Seðlabankans að ekki sé til staðar heimild til að kaupa erlendan gjaldeyri af fjármálafyrirtæki hér á landi eða til flutnings erlends gjaldeyris á milli landa, á grundvelli viðskipta með sýndarfé. Þegar af þeirri ástæðu eru viðskipti með sýndarfé takmörkunum háð á Íslandi.
Að lokum skal ítrekað að notkun sýndarfjár getur fylgt mikil áhætta enda sýnir reynslan undanfarin misseri að virði sýndarfjár í viðurkenndum gjaldmiðlum hefur sveiflast mikið frá einum tíma til annars.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.

 

Nr. 9/2014
19. mars 2014

 

Til baka