11. júlí 2014
Reglubundin gjaldeyriskaup Seðlabanka Íslands aukin
Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að auka reglubundin, vikuleg kaup, á gjaldeyri úr þremur milljónum evra í sex milljónir evra. Kaupin munu fara fram á þriðjudögum og fimmtudögum strax eftir opnun markaðar.Seðlabanki Íslands hefur frá áramótum keypt gjaldeyri umfram það sem hann hefur selt fyrir 275 milljónir evra sem samsvarar 42,7 ma.kr. Þetta jafngildir því að bankinn hafi keypt að jafnaði um 9,8 milljónir evra á viku.
Í fréttatilkynningu sem birt var 11. júní síðastliðinn var tilkynnt að Seðlabankinn hygðist hefja reglubundin gjaldeyriskaup að nýju og hefur síðan keypt vikulega þrjár milljónir evra af viðskiptavökum, á þriðjudögum, samtals 12 milljónir evra, jafnvirði 1,8 ma.kr. Nokkurt innstreymi hefur verið af gjaldeyri á sama tíma og hefur Seðlabankinn keypt gjaldeyri af viðskiptavökum töluvert umfram regluleg kaup. Frá 11. júní sl. hefur Seðlabankinn keypt umfram reglubundin kaup 41 milljónir evra að jafnvirði 6,3 ma.kr. Samtals hefur Seðlabankinn á síðustu 5 vikum keypt um 10,6 milljónir evra að meðaltali á viku bæði með inngripum og reglubundnum viðskiptum. Í ljósi þessarar þróunar og mats á aðstæðum á gjaldeyrismarkaði telur Seðlabanki Íslands að hægt sé að auka reglubundin kaup á gjaldeyri úr þremur milljónum evra á viku í sex milljónir evra.Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 5699600.
Frétt nr. 23/2014
11. júlí 2014