Yfirlýsing peningastefnunefndar 5. nóvember 2014
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur.
Samkvæmt spá bankans, sem birtist í Peningamálum í dag, eru horfur á heldur minni hagvexti í ár en spáð var í ágúst. Áfram er gert ráð fyrir kröftugum vexti innlendrar eftirspurnar og þróttmiklum hagvexti á næstu þremur árum. Batinn á vinnumarkaði heldur einnig áfram, þótt nokkuð hafi dregið úr vexti vinnuaflseftirspurnar.
Verðbólga hefur verið undir markmiði í níu mánuði samfleytt. Hún hefur minnkað enn frekar á haustmánuðum og skýrist hún að mestu leyti af hækkun húsnæðisverðs. Lítil alþjóðleg verðbólga og stöðugt gengi krónu stuðla að lítilli verðbólgu þrátt fyrir töluverðar launahækkanir. Verðbólguhorfur til skemmri tíma eru af þessum sökum betri en í ágúst. Samkvæmt spá bankans eru líkur á að verðbólga hjaðni frekar á næstu mánuðum og verði við eða undir markmiði fram yfir mitt næsta ár. Verðbólguvæntingar hafa lækkað á undanförnum mánuðum og nálgast nú verðbólgumarkmiðið.
Meiri þjóðhagslegur sparnaður og viðskiptaafgangur en gert var ráð fyrir í fyrri spám hafa viðhaldið verulegu gjaldeyrisinnstreymi en gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans hafa lagst gegn óhóflegri hækkun á gengi krónunnar og dregið úr gengissveiflum.
Nafnvextir Seðlabankans hafa verið óbreyttir í tvö ár, en raunvextir bankans hafa að undanförnu hækkað meira en búist var við sökum hraðari hjöðnunar verðbólgu og verðbólguvæntinga og umfram það sem staða hagsveiflunnar og nærhorfur gefa tilefni til. Því eru forsendur til að draga úr hækkun raunvaxta.
Framvinda nafnvaxta ræðst eins og alltaf af þróun eftirspurnar og verðbólgu. Verði launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmið gætu skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu hins vegar grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný.
Nr. 36/2014
5. nóvember 2014
Vextir Seðlabanka Íslands verða samkvæmt þessu sem hér segir:
Daglán: 6,75%
7 daga veðlán: 5,75%
Viðskiptareikningar: 4,75%
7 daga bundin innlán: 5,00%