Könnun á væntingum markaðsaðila
Könnun á væntingum markaðsaðila var framkvæmd dagana 29.- 30. janúar sl. Leitað var til 34 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 20 aðilum og var svarhlutfallið því 59%.
Niðurstöður könnunarinnar í janúar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila til skemmri tíma litið hafa lækkað talsvert frá októberkönnun bankans en að langtímavæntingar hafa lítið breyst. Miðað við miðgildi svara í könnuninni virðast þeir vænta um 0,8% verðbólgu á fyrsta fjórðungi þessa árs og 1% á öðrum fjórðungi sem er tæplega 1,5 prósentum minni verðbólga en þeir gerðu ráð fyrir í október. Könnunin bendir einnig til þess að væntingar þeirra til verðbólgu eftir eitt ár hafi lækkað um 0,2 prósentur, í 2,6%. Niðurstöður sýna jafnframt að markaðsaðilar vænta þess að ársverðbólga verði 3% bæði eftir tvö ár og að meðaltali á næstu fimm árum, líkt og í október. Væntingar um verðbólgu að meðaltali næstu tíu ár hafa lækkað um 0,2 prósentur milli kannana og eru nú einnig 3%. Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænta þess að gengi evru verði 152 krónur eftir eitt ár sem er rúmlega 1½% sterkari króna en í síðustu könnun bankans.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að veðlánavextir bankans verði lækkaðir um 0,25 prósentur á fyrsta fjórðungi þessa árs en að þeir verði hækkaðir á ný um 0,25 prósentur á fjórða fjórðungi ársins, í 5,25%, og að þeir verði 5,5% eftir tvö ár. Það eru prósentu lægri vextir en þeir væntu í októberkönnun bankans. Þegar könnunin var framkvæmd taldi um ¾ hluti svarenda taumhald peningastefnunnar vera of þétt eða allt of þétt sem er svipað og í októberkönnun bankans. Á sama tímabili hefur hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið hæfilegt lækkað lítillega, í rúmlega 20%.
Í könnuninni í janúar voru markaðsaðilar spurðir hvað þeir telja áhættuálag vegna óvissu um verðbólguþróun á skuldabréfamarkaði vera um þessar mundir. Miðað við miðgildi svara telja þeir álagið vera 0,2 prósentur til eins árs, 0,3 prósentur til tveggja ára og 0,5 prósentur til fimm ára.
Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila 1F2015 (Excel-skjal)
Frekari upplýsingar um markmið og framkvæmd væntingakönnunar markaðsaðila má finna hér: Upplýsingarit 1.3
Sjá ennfremur: Væntingakönnun markaðsaðila