logo-for-printing

09. febrúar 2015

Fallegasti seðillinn valinn á Safnanótt

Tvö þúsund króna seðill

Á Safnanótt síðastliðinn föstudag fór fram kosning meðal þeirra sem mættu í Myntsafn Seðlabankans og Þjóðminjasafns um það hvaða peningaseðill, af þeim seðlum sem nú eru í umferð, væri fallegastur. Starfsmenn Seðlabankans tóku einnig þátt í kosningunni. Kosningin var spennandi og úrslitin mjög tvísýn. Alls taldi tæplega þriðjungur, eða 32% þátttakenda, að tvö þúsund króna seðillinn, sem sækir myndefni í verk Jóhannesar Kjarvals, væri fallegasti peningaseðillinn. Álíka margir, eða 31% þátttakenda töldu að nýi tíu þúsund króna seðillinn væri fallegasti seðillinn. 

Eins og kunnugt er sækir tíu þúsund króna seðillinn myndefni í verk Jónasar Hallgrímssonar.

Þess má geta að þrátt fyrir þetta hefur tvö þúsund króna seðillinn ekki verið mjög eftirsóttur sem greiðslumiðill og hefur því verið ákveðið fyrir nokkru að taka hann úr umferð. Fegurð virðist ekki fara saman við gagnsemi í þessu tilviki. Í lok síðasta mánaðar voru 127.500 tvö þúsund króna seðlar í umferð en tæplega 1,3 milljónir tíu þúsund króna seðla. Enn eru hins vegar fimm þúsund króna seðlar flestir í umferð eða 5,5 milljónir og þar á eftir koma ríflega fjórar milljónir þúsund króna seðla. 

Þess má til gamans geta að þegar greint er á milli gesta og starfsmanna Seðlabanka Íslands sem tóku þátt í kosningunni er niðurstaðan nánast alveg eins: Tvö þúsund króna seðillinn rétt marði sigur á tíu þúsund króna seðlinum og í báðum tilvikum lenti þúsund króna seðillinn í neðsta sæti. Aðeins munaði einu atkvæði í báðum tilvikum varðandi vinsælasta seðilinn.

Sjá nánari upplýsingar um seðla og mynt í umferð hér: Seðla og mynt.

Sjá hér upplýsingar um Safnanótt í Seðlabankanum: Dagskrá og Myndir og stutt frásögn frá Safnanóttinni.

Til baka