Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í lok fyrsta ársfjórðungs 2015
Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2015 og um erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Til frekari upplýsingar birtir Seðlabankinn samhliða mat á undirliggjandi erlendri stöðu þjóðarbúsins. Er þá reynt að leggja mat á þá stöðu sem mun birtast þegar innlendar og erlendar eignir innlánsstofnana í slitameðferð hafa verið seldar og andvirði þeirra ráðstafað til kröfuhafa. Undirliggjandi erlend staða í lok fyrsta ársfjórðungs 2015 er metin neikvæð um 783 ma.kr. eða 38% af áætlaðri vergri landsframleiðslu. Til samanburðar var undirliggjandi staða í lok fjórða ársfjórðungs 2014 metin neikvæð um 880 ma.kr. Undirliggjandi staða hefur því batnað á fyrsta ársfjórðungi 2015 um 97 ma.kr. eða um 4,7% af vergri landsframleiðslu. Helstu breytingar á ársfjórðungnum felast í aukningu á brúttó gjaldeyrisforða, um tæpa 63 ma.kr., sem skýrist að hluta af erlendum lántökum innlendra aðila og gengis- og virðisbreytingum á eignum og skuldum sem voru hagstæðar um rúman 71 ma.kr. í ársfjórðungnum.
Sjá hér fréttina í heild um undirliggjandi stöðu:
Fréttatilkynning nr. 11/2015 Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í lok fyrsta ársfjórðung árs 2015