Tilkynning vegna aðgerða til losunar fjármagnshafta
Tilkynning vegna aðgerða til losunar fjármagnshafta
Í ljósi aðgerða til losunar fjármagnshafta, sem kynntar voru í dag, vill Seðlabanki Íslands koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.
Fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda er ætlað að takast á við vanda sem stafar af uppgjörum búa fallinna fjármálafyrirtækja og hafa það að markmiði að tryggja að stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálalegum stöðugleika verði ekki raskað með slitum þeirra. Forsenda þess að uppgjör fallinna fjármálafyrirtækja valdi ekki óstöðugleika er að gripið verði til ráðstafana til mótvægis þeim neikvæðu áhrifum sem stafa af útgreiðslum innlendra eigna til erlendra kröfuhafa. Markmið stöðugleikaskattsins er að leysa þennan vanda með því að lækka andvirði þeirra innlendu eigna sem við útgöngu gætu valdið óstöðugleika og mynda mótvægi við þær. Í fyrirhuguðum lögum um stöðugleikaskatt er einnig að finna ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir að ráðstöfun skattsins hafi óæskileg áhrif á peningamagn eða önnur áhrif sem gætu raskað efnahagslegum stöðugleika.
Eftir að frumvarp um stöðugleikaskatt, sem lagt er fram á Alþingi í dag, er orðið að lögum hafa slitabú svigrúm til ársloka til þess að afla undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál þar sem framangreindar forsendur eru tryggðar. Samkvæmt 7. gr. laga um gjaldeyrismál er Seðlabankanum heimilt að veita undanþágur frá takmörkunum laganna. Við mat á beiðni um undanþágu skal Seðlabankinn horfa til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Varði undanþága fjármálafyrirtæki sem sætir slitameðferð og hún felur í sér heimild til gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga á milli landa fyrir hærri fjárhæð en nemur 25 milljörðum króna á einu ári eða varði lögaðila með efnahagsreikning yfir 400 milljörðum króna og getur haft umtalsverð áhrif á skuldastöðu þjóðarbúsins og varðað eignarhald viðskiptabanka skal hún aðeins veitt að höfðu samráði við ráðherra og að undangenginni kynningu ráðherra á efnahagslegum áhrifum þeirra fyrir efnahags- og viðskipanefnd Alþingis, sbr. 2. mgr. 13. g. o laganna.
Við veitingu undanþágu til uppgjörs fallinna fjármálafyrirtækja mun Seðlabanki Íslands líta til þeirra markmiða um stöðugleika sem stöðugleikaskatturinn byggir á. Í því sambandi mun Seðlabankinn taka mið af mögulegum lausnum vandans sem fram hafa komið í upplýsingaskiptum framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta og fulltrúa kröfuhafa og slitastjórna um að:
• gerðar verði ráðstafanir sem draga nægilega úr neikvæðum áhrifum af útgreiðslum andvirðis eigna í íslenskum krónum,
• að öðrum innlendum eignum fallinna fjármálafyrirtækja í erlendum gjaldeyri verði breytt í langtímafjármögnun að því marki sem þörf krefur og
• að tryggt verði, í þeim tilvikum sem það á við, að lánafyrirgreiðsla stjórnvalda í erlendum gjaldeyri sem veitt var nýju bönkunum í kjölfar hruns á fjármálamarkaði verði endurgreidd.
Seðlabanki telur að breytingar á lögum um gjaldeyrismál, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um Seðlabanka Íslands feli í sér úrræði sem skapi forsendu til þess að veita megi undanþágur til fallinna fjármálafyrirtækja, að því gefnu að þær verði í samræmi við ofangreint og þar með skilyrði 7. gr. laga um gjaldeyrismál.
Frétt nr. 13 2015 Tilkynning vegna aðgerða til losunar fjármagnshafta.pdf