logo-for-printing

12. október 2015

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2015

Seðlabankastjórar og fulltrúar í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á ársfundi 2015

Ársfundir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fjárhagsnefndar sjóðsins (e. IMFC; International Monetary and Financial Committee) árið 2015 voru haldnir dagana 9.-11. þessa mánaðar í Líma í Perú. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti ársfundinn en hann er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og flutti að þessu sinni ársfundarræðu fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Fulltrúi kjördæmisins í fjárhagsnefnd AGS var Øystein Olsen, seðlabankastjóri í Noregi.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri flutti í upphafi síðustu viku erindi á árlegri ráðstefnu samtakanna Reinventing Bretton Woods sem haldin var í samvinnu við Seðlabanka Perú. Þá átti hann fundi með fulltrúum fjármálafyrirtækja og lánshæfismatsfyrirtækja. Loks sat Már fund stýrinefndar sem hann á sæti í um alþjóðlegar reglur um fjármagnshreyfingar og skipulagt skuldauppgjör.

Í yfirlýsingu fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom meðal annars fram að teikn væru á lofti um áframhaldandi bata í heimsbúskapnum, en hagvöxtur væri rýr og misjafn eftir löndum. Þá segir í yfirlýsingunni að óstöðugleiki hafi einkennt fjármálamarkaði og búast megi við frekari óvissu á mörkuðum. Horfur væru á að hagvöxtur yrði minni á allra næstu árum en reiknað var með í upphafi árs. Æskilegt væri að hagstjórn í aðildarlöndum sjóðsins stefndi að því að glæða hagvöxt sem fyrst, varðveita sjálfbærni í ríkisfjármálum, draga úr atvinnuleysi, tryggja fjármálastöðugleika og efla milliríkjaviðskipti.

Meðfylgjandi eru tenglar í nánari upplýsingar í tengslum við ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:

Ályktun fjárhagsnefndar AGS, október 2015

Ársfundarræða kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, flutt af Má Guðmundssyni seðlabankastjóra

Upptaka af ársfundarræðu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.

Yfirlýsing kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í fjárhagsnefnd AGS, flutt af Øystein Olsen, seðlabankastjóra Noregs

Sjá nánar á heimasíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Upplýsingar um stýrinefnd um alþjóðlegar reglur um fjármagnshreyfingar og skipulagt skuldauppgjör

Til baka