Verðbólgudraugurinn til umræðu í Seðlabankanum
Þessi fríði og hressi hópur nemenda úr leikskólanum Vesturborg í Reykjavík kom nýverið í heimsókn í Seðlabankann. Hópurinn fékk m.a. fræðslu um baráttuna við verðbólgudrauginn, þá ógnarskepnu sem herjaði einkum á Íslendinga fyrir nokkrum áratugum en lætur enn á sér kræla við og við.
Það var enginn hrifinn af því að leyfa þessu fyrirbæri að vaxa og dafna, éta upp peninga fólksins, og eyða þannig kaupmætti í landinu. Þess vegna virtust krakkarnir vera ákaflega fegnir að heyra að til er meðal gegn þessari skepnu, verðbólgudraugnum, sem hægt er að gefa inn í hæfilegum skömmtum til að stuðla að stöðugra verði og betri velferð fyrir fólkið til framtíðar.
Nemendurnir fengu að heyra að þetta meðal eru vextir Seðlabankans sem eru notaðir í viðskiptum Seðlabankans og lánastofnana. Ef verðbólgudraugurinn sést í „spákúlum“ bankans er því ekkert annað að gera en að gera peninga dýrari með því að hækka vextina. Þá sparar fólk fremur og eyðir minna í vörur og þjónustu. Þá minnkar eftirspurnin, verð hækkar minna og verðbólgudraugurinn verður óskaplega veiklulegur.
Krökkunum fannst nú ánægjulegt að hægt væri að beita svona meðali á þennan skaðvald.