Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs árið 2016
Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2016 var haldinn föstudaginn 22. janúar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Fjallað var um áhættu í fjármálakerfinu. Fram kom að horfur væru á auknu ójafnvægi í þjóðarbúskapnum á næstu misserum. Vöxtur útlána lánakerfisins í heild væri enn innan hóflegra marka en líkur væru á aukinni eftirspurn eftir útlánum í náinni framtíð. Samspil þjóðhagslegs ójafnvægis og útlánavaxtar gætu haft neikvæð áhrif á fjármálakerfið. Viðnámsþróttur bankanna væri töluverður en vel væri fylgst með lausafjárstöðu þeirra, sérstaklega vegna uppgjörs nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og útboðs í tengslum við losun og bindingu aflandskróna.
Aðalefni fundarins voru eiginfjáraukar en ákvæði um þá í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, tóku gildi 1. janúar 2016. Með hliðsjón af greiningum kerfisáhættunefndar beinir fjármálastöðugleikaráð því til Fjármálaeftirlitsins að komið verði á þremur eiginfjáraukum: eiginfjárauka vegna kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja, eiginfjárauka vegna kerfisáhættu og sveiflujöfnunarauka. Verndunarauki tók gildi um síðustu áramót sbr. 84. gr. e. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en hann krefst ekki tilmæla frá fjármálastöðugleikaráði.
Fjármálastöðugleikaráð beinir eftirfarandi tilmælum til Fjármálaeftirlitsins:
1) Að settur verði 2% eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, á samstæðugrunni, frá 1. apríl 2016. Kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki eru Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. eins og skilgreint var á fundi fjármálastöðugleikaráðs 14. apríl 2015.
2) Að settur verði á eiginfjárauki vegna kerfisáhættu sem nemur 3% af áhættuvegnum innlendum eignum á kerfislega mikilvægar innlánsstofnanir, það er Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankann hf., frá 1. apríl 2016. Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu á aðrar innlánsstofnanir [1] fari stighækkandi og verði 1% af áhættuvegnum innlendum eignum 1. apríl 2016, 1,5% frá 1. janúar 2017, 2,0% frá 1. janúar 2018 og 3% frá 1. janúar 2019. Eiginfjáraukinn taki til þessara innlánsstofnana á samstæðugrunni.
3) Að settur verði 1% sveiflujöfnunarauki á öll fjármálafyrirtæki á samstæðugrunni, nema þau sem eru undanskilin eiginfjáraukanum skv. 4. mgr. 84. gr. d laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og að hann taki gildi 12 mánuðum frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Ekki er útlit fyrir að ákvörðun um gildi eiginfjáraukanna muni krefjast mikillar eiginfjáraukningar í fjármálakerfinu frá núverandi stöðu þess en Fjármálaeftirlitið hefur, allt frá könnunar- og matsferli 2014, mælst til þess að ákveðnar innlánsstofnanir gerðu ráð fyrir að lagðir yrðu á eiginfjáraukar. Þá gera tillögur fjármálastöðugleikaráðs ráð fyrir að veittur verði nokkur aðlögunartími til að bregðast við auknum eiginfjárkröfum. Miðað við núverandi eiginfjárstöðu fjármálakerfisins er nauðsynleg eiginfjáraukning vegna þessara eiginfjárauka um 9 ma.kr. fyrsta ársfjórðung 2017, eða 1,5% af heildar eiginfé innlánsstofnana m.v. núverandi stöðu. Í nágrannaríkjum okkar hefur innleiðingu eiginfjáraukanna verið hagað í samræmi við aðstæður í hverju landi og þeim beitt með nokkuð ólíkum hætti en flest ríkjanna hafa virkjað a.m.k. tvo þeirra.
Meðfylgjandi eru tilmæli fjármálastöðugleikaráðs til Fjármálaeftirlitsins þar sem er að finna nánari rökstuðningi fyrir eiginfjáraukunum. Með tilmælunum fylgja viðaukar fyrir hvern eiginfjárauka, stutt skýrsla um áhrif eiginfjáraukanna á fjármálakerfið og umfjöllun um eiginfjárauka í nágrannalöndum okkar. Fari Fjármálaeftirlitið ekki að tilmælunum er þess óskað að sú ákvörðun verði rökstudd með skriflegu svari til fjármálastöðugleikaráðs innan 30 daga.
Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs til Fjármálaeftirlitsins ásamt frekari rökstuðningi má finna á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.
[1] Kvika banki hf., Sparisjóður Austurlands hf., Sparisjóður Höfðhverfinga ses. Sparisjóður Strandamanna ses. og Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses.
Frétt nr. 3/2016
25.1.2016