logo-for-printing

05. febrúar 2016

Krakkar á konungsstóli - í Seðlabankanum í kvöld

Mynt frá 1890

Seðlabankinn tekur þátt í Safnanótt í kvöld. Meðal viðburða í Myntsafni í Seðlabankabyggingunni verður sérsýning um unga þjóðhöfðingja og svo mun hagfræðingurinn syngjandi, Jón Jónsson, taka lagið. Þá mun Sigurður Helgi Pálmason safnvörður flytja fyrirlestur um myntfræði og sögu gjaldmiðla. Safnanóttin í Seðlabankanum hefst klukkan 19:00 og henni lýkur á miðnætti. Myntsafnið býður upp á fróðlega og vandaða yfirlitssýningu um íslenska mynt og seðla og erlenda peninga frá fyrri öldum. Í tilefni Safnanætur hafa verið settar upp sérsýningarnar „Ungir þjóðhöfðingjar“, „Hvers vegna tíu þúsund króna seðill“ og „Sparnaðarleiðir ungmenna áður fyrr“.

Gestum gefst kostur á að taka þátt í kosningu um fallegustu myntina sem í gildi er í dag. Fyrir ári kusu gestir um fallegasta seðilinn og varð tvö þúsund króna seðillinn þá fyrir valinu hjá flestum. Hægt verður að skoða höggmyndir, kynna sér sparnaðarleiðir fyrr og nú, kíkja á myndbönd sem tengjast seðlum og mynt og senda sérstakt póstkort til vina og vandamanna. Þá geta börn sem fullorðnir teiknað sína hugmynd af mynt.

Myntsafn Seðlabankans og Þjóðminjasafns er í byggingu Seðlabankans við Kalkofnsveg í Reykjavík. Gengið er inn frá Arnarhóli.


Dagskrá Safnanætur í Seðlabankanum er nánar tiltekið þessi:


19.00 Húsið opnað
19:00 Guðjón Emilsson hagfræðingur leikur á flygil - sýningarsalur
20.00 Fyrirlestur um myntfræði og sögu gjaldmiðla – Sigurður Helgi Pálmason – Sölvhóll, fyrirlestrasalur
20.30 Spilað og sungið – Jón Jónsson tónlistarmaður og hagfræðingur - sýningarsalur
21.30 Fyrirlestur um myntfræði sögu gjaldmiðla – Sigurður Helgi Pálmason – Sölvhóll, fyrirlestrasalur
22.00 Spilað og sungið – Jón Jónsson tónlistarmaður og hagfræðingur - sýningarsalur
24.00 Húsinu lokað

Dagskráin á sér stað á þremur stöðum á fyrstu hæð í Seðlabankabyggingunni.

Sölvhóll
Sýning á stuttmyndum Seðlabankans. 
Fyrirlestur um myntfræði og sögu gjaldmiðla kl. 20.00 og 21.30.

Höggmyndagarður
Gakktu um garðinn og skoðaðu fallegar höggmyndir, upplýsingabæklingur er til staðar.
Sýningarsalur Myntsafns.
Fróðleg og falleg yfirlitssýning um íslenska mynt og seðla og erlenda peninga frá fyrri öldum ásamt sýningu um unga þjóðhöfðingja, 10 þúsund krónur og nokkrar sparnaðarleiðir ungmenna áður fyrr. 
Tónlistarflutningur.
Hvernig á mynt að vera: Teiknaðu og litaðu mynt .
Sendu 10 aura: Skrifaðu kveðju á póstkort og við sendum það fyrir þig.
Kosning um fallegustu gildandi myntina – úrslit kynnt á www.sedlabanki.is eftir helgi.
Létt hressing á boðstólum.

Auk þess er boðið upp á léttan leik:

Þú finnur svarið hér - Safnanæturleikur:
Frá hvaða landi er „silfurmiltið“ í sýningunni í Myntsafni Seðlabankans?

Til baka