Seðlabankinn byrjar með Twitter - vaxtaákvörðun á morgun
Á morgun mun Seðlabanki Íslands hefja formlega sendingar á efni í gegnum samskiptamiðilinn Twitter. Það verður gert í tilefni af fyrstu vaxtaákvörðun á árinu og útgáfu á fyrsta hefti Peningamála á árinu. Þeir sem tengjast tístsendingum Seðlabankans geta þannig fengið ábendingar um ákvarðanir um vexti, um sérstakt efni í ritum bankans og upplýsingar um fleira sem Seðlabankinn hefur með að gera. Nú þegar hefur hópur fólks gerst áskrifandi tíst-sendingum bankans. Þeir sem vilja tengjast tístsendingunum þurfa að vera skráðir með aðgang að Twitter og geta þar tengt sig við @sedlabanki_is eða við enska hlutann sem er @centralbank_is.
Vaxtaákvörðun peningastefnunefndar verður birt á vef bankans og með fréttasendingum klukkan 8:55 á morgun og ritið Peningamál verður birt á vef bankans klukkan 9:00. Klukkustund síðar, klukkan 10:00, hefst svo vefútsending þar sem nánar verður greint frá rökum að baki vaxtaákvörðunarinnar og efni Peningamála kynnt. Þar munu Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans kynna ákvörðunina nánar og greina frá efni Peningamála. Þeir sitja báðir í peningastefnunefnd Seðlabankans.
Þeir sem tengjast Seðlabankanum í gegnum Twitter, samanber ofangreint, fá tilkynningar um það sem er á döfinni og fá jafnframt á næstu dögum stuttar ábendingar um efni í Peningamálum.
Vefútsendinguna verður sem sagt að finna hér.