Síðasta undanþágan vegna uppgjörs búa fallinna viðskiptabanka og sparisjóða hefur verið veitt
Í dag skrifuðu seðlabankastjóri og framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands undir síðustu undanþágu frá takmörkunum laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál vegna uppgjörs fallinna viðskiptabanka og sparisjóða á grundvelli stöðugleikaskilyrða. Seðlabanki Íslands hefur nú veitt alls sjö undanþágur með þeirri undanþágu sem veitt var í dag, og veitt mat sitt á efnahagslegum áhrifum sjö frumvarpa að nauðasamningum fallinna viðskiptabanka og sparisjóða. Þar með er ljóst að allir fallnir viðskiptabankar og sparisjóðir sem falla undir lög um stöðugleikaskatt, samtals átta talsins, munu fara leið nauðasamnings á grundvelli uppfylltra stöðugleikaskilyrða, en einn aðili hafði þegar gert nauðasamning og annar þurfti ekki undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál.
Með þessari niðurstöðu er lokið einum stærsta kaflanum í uppgjörinu eftir fjármálakreppuna hér á landi.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.
Nr. 5/2016
18. febrúar 2016