logo-for-printing

18. apríl 2016

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2016

Seðlabankastjórar og fulltrúar í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á vorfundi 2016

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem haldinn var í Washington í Bandaríkjunum dagana 15. til 17. apríl síðastliðinn. Fulltrúar Seðlabankans áttu auk þess fundi með stjórnendum og starfsfólki AGS, fulltrúum fjármálastofnana og matsfyrirtækja ásamt því að sækja ráðstefnur í tengslum við fundina.

Á fundi fjárhagsnefndar AGS (e. International Monetary and Financial Committee) kynnti framkvæmdastjóri AGS mat sitt á stöðu og horfum í heimsbúskapnum og helstu viðfangsefni AGS. 

Fulltrúi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í fjárhagsnefnd AGS var að þessu sinni fjármálaráðherra Noregs, Siv Jensen, og má nálgast yfirlýsingu hennar fyrir hönd kjördæmisins hér að neðan.

Í ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er undir forystu Agustín Carstens, seðlabankastjóra Mexíkó, kemur m.a. fram að hagvaxtarhorfur eru taldar veikari en þær voru á síðasta fundi nefndarinnar. Hagvöxtur heldur þó áfram hægum skrefum. Órói á fjármálamörkuðum hefur aukist og hægt hefur á vexti heimsviðskipta. Veik eftirspurn, lítil framleiðni og eftirhreytur fjármálakreppunnar halda aftur af endurbata í hagkerfum þróaðra ríkja og hægst hefur á vexti í nýmarkaðs- og þróunarríkjum. Aukin landfræðipólitísk (e. geopolitical) spenna, flóttamannavandi og óvissa varðandi mögulega útgöngu Breta úr Evrópusambandinu gæti aukið áhættu í heimsbúskapnum í nánustu framtíð. Mikilvægt er að stefnumörkun landa sé markviss með áherslu á hagvaxtarhvetjandi ríkisfjármálastefnu og kerfisumbætur.

Tengill í yfirlýsingu Sivjar Jensen, fjármálaráðherra Noregs og fulltrúa kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í fjárhagsnefnd AGS.

Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er aðgengileg hér.

Hér má sjá dagskrá vorfundarins í heild sinni.

Hér má sjá ráðgjöf sjóðsins hvað varðar stefnumótun á alþjóðavísu.

Meðfylgjandi er mynd sem tekin var af seðlabankastjórum og fulltrúum í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundinum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri er fimmti frá vinstri í þriðju öftustu röð.

Til baka