Alþjóðleg ráðstefna um fjármagnsflæði, kerfisáhættu og stefnuviðbrögð
Á ráðstefnunni, sem verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica og í Silfurbergi í Hörpu í Reykjavík, verður kynntur fjöldi rannsókna. Már Guðmundsson seðlabankastjóri opnar ráðstefnuna með inngangsorðum í fyrramálið og að því loknu flytur Stijn Claessens frá Seðlabanka Bandaríkjanna sérstakt ávarp. Þá hefjast umræður um þjóðhagsvarúðarstefnu undir stjórn Sigríðar Benediktsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, og Ásgeirs Jónssonar, forseta hagfræðideildar Háskóla Íslands, með þátttöku fulltrúa frá seðlabönkum og háskólum. Þá verður einnig sérstök umræða um fjármagnsflæði á milli landa og möguleg stefnuviðbrögð undir stjórn Charles Goodharts, prófessors og fyrrverandi aðalhagfræðings Englandsbanka.
Á föstudeginum hefst umræða um fjármagnsflæði og fjármálastöðugleika undir stjórn Luis Catao frá AGS. Þá munu Jón Daníelsson frá Kerfisáhættumiðstöð LSE og Þorvarður Tjörvi Ólafsson frá Seðlabanka Íslands flytja erindi. Jón mun fjalla um fjármál í óstöðugum hagkerfum og Þorvarður Tjörvi um fjármálasveiflur, fjármagnsflæði og stefnuviðbrögð á Íslandi.
Á föstudag klukkan 14:00 verður dagskrá í Hörpu sem hefst á sérstöku ávarpi Maurice Obstfeld, aðalhagfræðings AGS og að því loknu verða pallborðsumræður með þátttöku Jörg Decressin (AGS), Karnit Flug (Seðlabanka Ísrael), Má Guðmundssyni, Turalay Kenc (Seðlabanka Tyrklands), Luiz A. Pereira da Silva (Alþjóðagreiðslubankanum) og Carmen Reinhart (Harvardháskóla). Lokaorð á ráðstefnunni flytur svo Jón Daníelsson frá Kerfisáhættumiðstöð LSE í Lundúnum.