Könnun á væntingum markaðsaðila
Könnun á væntingum markaðsaðila var framkvæmd dagana 2. - 4. maí sl. Leitað var til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 12 aðilum og var svarhlutfallið því 41%.
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar búist við því að verðbólga verði minni á næstu mánuðum en þeir væntu í síðustu könnun sem gerð var í febrúar en muni síðan aukast á næstu misserum. Miðað við miðgildi svara í könnuninni virðast þeir vænta um 1,6% verðbólgu á öðrum fjórðungi þessa árs, 1,9% á þriðja fjórðungi og 2,9% á fjórða fjórðungi. Það er um 0,3-0,6 prósentum minni verðbólga en þeir gerðu ráð fyrir í byrjun febrúar. Könnunin bendir einnig til þess að þeir búist við að verðbólga verði 3,2% eftir eitt ár sem er 0,2 prósentum meiri verðbólga en í síðustu könnun og 3,4% eftir tvö ár sem er 0,1 prósentu minna en í síðustu könnun. Þá vænta þeir að meðalverðbólga á næstu fimm árum verði 3,1% sem er lækkun um 0,1 prósentu frá könnuninni í febrúar. Væntingar um meðalverðbólgu á næstu tíu árum hækkuðu hins vegar um 0,2 prósentur milli kannana og eru 3,5%. Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru verði 136 krónur eftir eitt ár sem er rúmlega 2% lægra en í síðustu könnun bankans.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni væntu markaðsaðilar þess að veðlánavextir bankans verði óbreyttir út þetta ár en samkvæmt síðustu könnun væntu þeir að vextirnir yrðu hækkaðir um ½ prósentu á síðari hluta þessa árs. Núverandi könnun gefur hins vegar til kynna að þeir búist við að vextirnir verði hækkaðir um 0,25 prósentur í byrjun næsta árs, í 6,75%, en verði aftur komnir niður í 6,5% eftir tvö ár sem er um 0,5 prósentum lægri vextir en í síðustu könnun. Þegar könnunin var framkvæmd taldi um 25% svarenda taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt sem er 12½ prósentu lægra en í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of laust eða alltof laust hækkaði úr 19% í 25% og hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt hækkaði einnig úr 44% í 50%.
- Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila á 2. ársfj. 2016
- Frekari upplýsingar um væntingakönnun markaðsaðila má finna hér: Könnun á væntingum markaðsaðila