Seðlabanki Íslands heldur gjaldeyrisútboð 16. júní næstkomandi
Seðlabanki Íslands býðst til að kaupa krónur í skiptum fyrir reiðufé í erlendum gjaldeyri. Nánar tiltekið er um að ræða krónur sem uppfylla skilgreiningu laga nr. 37/2016, svonefndar aflandskrónur. Útboðið fer fram fimmtudaginn 16. júní 2016 og hefst kl. 10:00 fyrir hádegi og stendur til kl. 14:00 eftir hádegi sama dag. Útboðið er liður í heildstæðri aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta, sbr. áætlun ríkisstjórnar Íslands og Seðlabankans um losun fjármagnshafta frá 8. júní 2015.
Endurkaupsverð í þeim tilvikum þar sem ríkisbréf, ríkisvíxlar eða íbúðabréf verða notuð sem greiðsla fyrir gjaldeyri í útboðinu verður birt opinberlega hinn 10. júní nk.
Útboðsfyrirkomulag er með þeim hætti að öll samþykkt tilboð bjóðast fjárfestum á sama verði (e. single price). Verð seldra evra í útboðinu mun ráðast af þátttöku í útboðinu með þeim hætti sem lýst er í eftirfarandi töflu:
Fjárhæð aflandskrónaeigna sem boðin er til sölu: | Útboðsverð: |
0 kr. - 50.000.000.000 kr. | 210 kr. pr. evru |
50.000.000.001 kr. - 75.000.000.000 kr. | 205 kr. pr. evru |
75.000.000.001 kr. - 125.000.000.000 kr. | 200 kr. pr. evru |
125.000.000.001 kr. - 175.000.000.000 kr. | 195 kr. pr. evru |
175.000.000.001 kr. eða meira. | 190 kr. pr. evru |
Viðskiptabankar og verðbréfamiðstöðvar með innlánsreikning hjá Seðlabanka Íslands, sem gert hafa samstarfssamning við Seðlabanka Íslands um milligöngu, munu annast milligöngu um þátttöku aflandskrónaeigenda í útboðinu ( sjá upplýsingar hér að neðan um þá aðila sem þegar hafa gengið frá samningi við Seðlabankann).
Frestur til að skila inn tilboðum rennur út kl. 14:00 hinn 16. júní 2016. Nánari lýsingu á framkvæmd útboðsins er að finna í útboðsskilmálum.
Uppgjör viðskipta á grundvelli útboðsins fer fram 29. júní 2016.
Athygli er vakin á að útboðið hinn 16. júní 2016 verður síðasta útboðið þar sem eigendum aflandskróna býðst að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hefja losun hafta á innlenda aðila: lífeyrissjóði, aðra lögaðila og einstaklinga.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.
Aðilar sem gert hafa samstarfssamning um milligöngu:
Arion banki hf.
Clearstream Banking S.A.
Euroclear Bank S.A./N.V.
Íslandsbanki hf.
Kvika banki hf.
Landsbankinn hf.
LuxCSD
Útboðsskilmálar vegna kaupa Seðlabanka Íslands á íslenskum krónum í skiptum fyrir evrur:
Útboðsskilmálar vegna kaupa Seðlabanka Íslands á íslenskum krónum í skiptum fyrir evrur (Breytt 13. júní 2016)
Frétt nr. 10/2016
25. maí 2016