
Úthlutun úr menningarsjóði tengdum nafni Jóhannesar Nordals

Nefndinni bárust 26 umsóknir um styrkinn í ár og er það fækkun frá fyrra ári þegar 36 umsóknir bárust. Nefndin, sem skipuð er þeim Hildi Traustadóttur (formanni), Ástu Magnúsdóttur, ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneyti og Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, valdi úr umsóknunum þrjú verkefni sem hljóta styrkinn í ár.
Styrkþegar í ár eru þau Einar Falur Ingólfsson sem hlýtur 700 þúsund króna styrk til myndlistarverkefnis er hefur vinnuheitið „EF & JL“, Brynhildur Björnsdóttir og Kristín Eva Þórhallsdóttir sem hljóta 800 þúsund króna styrk til verkefnisins „Ferðafélaginn“ og Gunnsteinn Ólafsson og Hallgrímur Helgason sem hljóta einnar og hálfrar milljónar króna styrk til verkefnisins „Höfuðlausn – ópera í fjórum þáttum“.
Einar Falur sótti um styrk í sjóðinn til að vinna umfangsmikið myndlistarverkefni sem hefur vinnuheitið EF & JL en hann mun ljósmynda sömu staði og Larsen teiknaði sumrin 1927 og 1930 fyrir dönsku útgáfu Íslendingasagnanna. Afrakstur verkefnisins verður svo bæði bók með ljósmyndum og skrifum Einars Fals ásamt teikningum eftir Johannes Larsen og sýning á verkum þeirra Larsens í safni á Fjóni og í Reykjavík.
Þær Brynhildur Björnsdóttir og Kristín Eva Þórhallsdóttir sóttu um styrk í sjóðinn til að útbúa Ferðafélagann – einskonar ferðabók fyrir börn sem hægt er að nota bæði á vefnum og prenta út. Verkefnið miðar að því að arfleiða börnin að efni og upplýsingum um íslenska náttúru og þau margvíslegu fyrirbæri sem þar er að finna.
Verkefni Gunnsteins Ólafssonar og Hallgríms Helgasonar Höfuðlausn – ópera í fjórum þáttum byggir á frásögn Egilssögu af því þegar Egill Skallagrímsson bjargar lífi sínu með skáldskapnum. Óperunni er ætlað að höfða sérstaklega til yngri kynslóða og miðla þannig Egilssögu til þeirra í gegnum óhefðbundið form, eða óperutónlistina. Gunnsteinn mun sjálfur semja tónlistina við verkið en Hallgrímur skrifar handrit.
Það var Þórunn Guðmundsdóttir, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, sem úthlutaði styrkjunum við sérstaka athöfn í Seðlabankanum í dag.