Niðurstaða gjaldeyrisútboðs 16. júní 2016
Hinn 16. júní 2016 bárust Seðlabanka Íslands tilboð um sölu á aflandskrónaeignum (1)gegn greiðslu reiðufjár í erlendum gjaldeyri. Tilboðin bárust vegna útboðs sem Seðlabanki Íslands auglýsti 25. maí 2016. Útboðið var liður í losun fjármagnshafta, samanber áætlun stjórnvalda frá 8. júní 2015.
Ákveðið hefur verið að taka öllum tilboðum sem bárust á genginu 190 krónur á hverja evru eða lægra (þ.e. frá tilboðsgjöfum sem buðust til að borga 190 kr. eða meira fyrir hverja evru). Með fyrirvara um endanlegt uppgjör bárust alls 1.646 tilboð og var 1.619 tilboðum tekið. Fjárhæð samþykktra tilboða nam rúmlega 72 ma.kr. af tæplega 178 ma.kr. sem boðnar voru í útboðinu. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands minnkar um rúmlega 47 ma.kr. í kjölfar útboðsins.
Seðlabanki Íslands hefur ákveðið í framhaldi af þessari niðurstöðu að bjóðast til að kaupa á útboðsgenginu 190 kr. á hverja evru aflandskrónaeignir sem ekki voru seldar í útboðinu. Óskir um viðskipti skulu berast Seðlabanka Íslands í gegnum milligönguaðila fyrir kl. 10:00 mánudaginn 27. júní 2016. Slík viðskipti gætu aukið kaup Seðlabanka Íslands á aflandskrónaeignum umfram það sem hér er tilkynnt um. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og skilmála þessara viðskipta verða birtar á morgun.
Endanlegar tölur um niðurstöðu gjaldeyrisútboðsins 16. júní síðastliðinn að teknu tilliti til viðskipta sem til kann að stofnast á grundvelli fyrrgreindrar ákvörðunar verða birtar að afloknu uppgjöri viðskipta 29. júní 2016. Uppgjör viðskipta á grundvelli tilboðs Seðlabanka Íslands sem getið er um hér að framan fer fram sama dag.
Útboðið 16. júní 2016 var hið síðasta í röð tuttugu og þriggja útboða þar sem eigendum aflandskróna var boðið að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hefja losun fjármagnshafta á innlenda aðila, þ.e. á lífeyrissjóði, aðra lögaðila og einstaklinga.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.
Nr. 17/2016
21. júní 2016
(1)Aflandskrónaeignir eru hér skilgreindar samkvæmt lögum nr. 37/2016.