logo-for-printing

22. júlí 2016

Breytt aðferðafræði matsfyrirtækisins Fitch

Bygging Seðlabanka Íslands

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch hélt í vikunni matsfundi innan fyrirtækisins þar sem endurskoðað var lánshæfismat á langtímaskuldbindingum í innlendum gjaldmiðli fyrir lönd þar sem mismunur er á langtímaeinkunn í erlendum og innlendum gjaldmiðli. Þessi endurskoðun er til þess að gæta samræmis vegna breytinga á viðmiðum fyrir lánshæfi sem tilkynntar voru af matsfyrirtækinu hinn 26. maí 2016. Samhliða þessari breytingu var gefið út nýtt lánshæfismat fyrir skammtímaskuldbindingar í innlendum gjaldmiðli. 

Í ljósi hinna nýju viðmiða hefur Fitch lækkað lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í innlendum gjaldmiðli til samræmis við einkunn fyrir langtímaskuldbindingar í erlendum gjaldmiðli í BBB+ með stöðugum horfum. Einkunn fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendum og innlendum gjaldmiðli er staðfest F2. Lánshæfiseinkunn fyrir langtímaskuldbindingar í erlendum gjaldmiðli er BBB+ með stöðugum horfum eins og staðfest var hinn 15. júlí sl. Einkunn Ríkissjóðs Íslands er áfram rökstudd með öflugum efnahagslegum grunnstoðum, bættum horfum í ríkisfjármálum, ytri stöðu og sterku stofnanakerfi.

Samsvarandi breyting verður gerð á lánshæfismati annarra landa þar sem mat á langtímaskuldbindingum í innlendum gjaldmiðlum var skör hærra en mat fyrirtækisins á langtímaskuldbindingum í erlendum gjaldmiðlum.

Meðfylgjandi er fréttatilkynning Fitch: Fitch Applies Criteria Changes to Iceland‘s Ratings


Til baka