Seðlabankinn hlýtur viðurkenningu fyrir græn skref í rekstri
Seðlabanki Íslands hefur lokið fyrsta græna skrefinu af fimm í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Af því tilefni veitti Már Guðmundsson seðlabankastjóri viðtöku sérstakri viðurkenningu frá Umhverfisstofnun.
Síðastliðið ár hefur Seðlabankinn markvisst unnið að grænum skrefum í umhverfismálum. Sérstakur vinnuhópur starfsmanna var stofnaður undir forystu Birnu Kristínar Jónsdóttur og var fyrsta verkefni hópsins að sjá til þess að notkun plastmála til kaffidrykkju var hætt og fengu allir starfsmenn fjölnota drykkjarmál. Hópurinn ásamt nokkrum starfsmönnum fór og gróðursetti 250 plöntur til kolefnisjöfnunar við sumarbústað starfsmannafélagsins og ný sorpflokkun hefur verið innleidd sem hefur það meðal annars að markmiði að draga úr pappírs- og plastnotkun. Áður hafði Seðlabankinn innleitt sérstaka samgöngustefnu þar sem starfsmenn eru hvattir til þess að hjóla eða nýta vistvæna ferðamáta til og frá vinnu.
Af þessu tilefni afhenti Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, Má Guðmundssyni seðlabankastjóra sérstaka viðurkenningu. Með þeim á meðfylgjandi mynd er Birna Kristín Jónsdóttir (til vinstri).