Yfirlýsing peningastefnunefndar 16. nóvember 2016
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,25%.
Samkvæmt grunnspá Seðlabankans sem birtist í nóvemberhefti Peningamála stefnir í mikinn hagvöxt á þessu og næsta ári og eru horfur á kröftugri vexti umsvifa en bankinn spáði í ágúst. Í ríkari mæli en áður er hagvöxturinn borinn uppi af innlendri eftirspurn, sem jókst um tæplega 10% á fyrri hluta þessa árs. Þá heldur störfum áfram að fjölga hratt, atvinnuleysi að minnka og skýrari merki eru um að hraður vöxtur eftirspurnar sé farinn að reyna á þanþol innlendra framleiðsluþátta. Á móti vegur meiri aðflutningur erlends vinnuafls.
Verðbólga mældist 1,8% í október og hefur haldist undir markmiði um tæplega þriggja ára skeið þrátt fyrir miklar launahækkanir og öran vöxt eftirspurnar. Viðskiptakjarabati, lítil alþjóðleg verðbólga og hækkun gengis krónunnar hafa vegið á móti áhrifum launahækkana á verðbólgu. Aðhaldssöm peningastefna hefur einnig leikið mikilvægt hlutverk við að halda aftur af verðbólgu og tryggja verðbólguvæntingum traustari kjölfestu. Þetta hefur hún gert með því að hægja á vexti eftirspurnar, beina hluta mikillar hækkunar tekna og auðs í sparnað og halda aftur af útlánavexti. Með þessu móti hefur peningastefnan stutt við gengi krónunnar sem hefur lækkað innflutningsverð enn frekar og beint hluta kröftugrar eftirspurnar út úr þjóðarbúskapnum.
Samkvæmt nýrri verðbólguspá bankans er útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram á mitt næsta ár en verði síðan á bilinu 2½-3% út spátímann. Þetta er töluverð breyting frá fyrri spá bankans og skýrist að verulegu leyti af því að í grunnspánni er gengi krónunnar spáð en ekki byggt á þeirri tæknilegu forsendu að það verði óbreytt allt spátímabilið. Verðbólguhorfur hafa þó einnig batnað, einkum til skemmri tíma litið. Breytt verðbólguspá gefur þó ekki jafnmikið tilefni til viðbragða peningastefnunnar og ætla mætti vegna þess að peningastefnunefnd hefur byggt ákvarðanir sínar að undanförnu á mati sem tók tillit til þess að töluverðar líkur voru á hækkun gengis krónunnar.
Undanfarna mánuði hefur Seðlabankinn keypt hlutfallslega minna af gjaldeyrisinnstreyminu en hann gerði fyrr á þessu ári. Peningastefnunefnd telur að óbreyttu rétt að halda áfram á þeirri braut.
Ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta vexti er tekin með hliðsjón af fyrirliggjandi spá og áhættumati nefndarinnar. Má þar sérstaklega nefna óvissu um stefnuna í ríkisfjármálum, en aðhald hennar hefur slaknað nokkuð undanfarin tvö ár og óljóst er á þessu stigi hver efnahagsstefna næstu ríkisstjórnar verður. Þá gætir óróa á vinnumarkaði, ekki síst í kjölfar nýlegs úrskurðar um hækkun launa þjóðkjörinna fulltrúa. Að auki gætir áfram óvissu um áhrif losunar fjármagnshafta, en vel hefur gengið fram til þessa. Við bætist óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur.
Þótt kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið virðist halda áfram að styrkjast og aðhald peningastefnunnar hafi að einhverju leyti aukist í gegnum hækkun gengis krónunnar, kalla kröftugur vöxtur eftirspurnar og ofangreindir óvissuþættir á varkárni við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.
Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands
Nr. 28/2016
16. nóvember 2016