logo-for-printing

02. desember 2016

Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins á þriðja ársfjórðungi 2016

Bygging Seðlabanka Íslands

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2016 og stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.1

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 100,4 ma.kr. á ársfjórðungnum samanborið við 32,5 ma.kr. fjórðunginn á undan. Þetta er mesti afgangur af viðskiptajöfnuði frá upphafi mælinga og í fyrsta sinn sem hann fer yfir 100 ma.kr. á fjórðungi. Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður sem nam 22,5 ma.kr. en þjónustujöfnuður2 mældist hagstæður um 121,6 ma.kr. Jöfnuður frumþáttatekna var hagstæður um 6,1 ma.kr. en rekstrarframlög óhagstæð um 4,8 ma.kr.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.040 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.980 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 60 ma.kr. eða sem nam 2,6% af VLF. Erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust.3 Nettóskuldir lækkuðu um 30 ma.kr. eða sem nam 1,3% af VLF á milli ársfjórðunga. Hrein fjármagnsviðskipti leiddu til um 129 ma.kr. bættrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins. Þar af hækkuðu erlendar eignir um 140 ma.kr. en skuldir um 11 ma.kr. vegna fjármagnsviðskiptanna. Gengis- og verðbreytingar höfðu neikvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins um 83 ma.kr. á ársfjórðungnum. Gengi krónunnar hækkaði gagnvart helstu gjaldmiðlum eða að jafnaði um 6,7% miðað við gengisskráningarvog. Mest hækkaði gengi krónunnar gagnvart sterlingspundi eða um 10,1%.

  Nr. 30/2016
2 . desember 2016

Hér má sjá fréttina í heild með töflum og neðanmálstilvísunum.

Hagtölur

Nánari upplýsingar veita Ríkarður Bergstað Ríkarðsson og Pétur Örn Sigurðsson á upplýsingasviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

 


Til baka