09. febrúar 2017
Málstofa í dag klukkan 11 um nýja tækni fyrir seðlabankafé
Jón Helgi Egilsson og Sveinn Valfells verða málshefjendur á málstofu í dag klukkan 11 um mögulega nýja tækni fyrir seðlabankafé. Málstofan er haldin í fundarsalnum Sölvhóli á fyrstu hæð í byggingu Seðlabanka Íslands við Kalkofnsveg í Reykjavík. Í ágripi höfunda af efni málstofunnar segja þeir að fjöldi seðlabanka kanni nú möguleika á því að gefa út eigin þjóðargjaldmiðil með sömu tækni og Bitcoin byggir á. Höfundar lýsa m.a. efnahagslegum hvötum að baki nýrrar tækni.Ágrip:
Fjöldi seðlabanka, þ.á m. seðlabankar í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Bretlandi, Rússlandi, Kína og Indlandi, kanna nú möguleika þess að gefa út eigin þjóðargjaldmiðil með sömu tækni og Bitcoin byggir á. Slíkir rafrænir þjóðargjaldmiðlar yrðu viðbót við annað fé sem seðlabankar gefa út. Peningamálastjórnun sem nýtir kosti og möguleika tækninnar hefur aldrei verið reynd enda tæknin ný af nálinni. Í nýútkominni skýrslu telja sérfræðingar Englandsbanka m.a. að með útgáfu rafræns þjóðargjaldmiðils í Bretlandi sé hægt að auka þjóðarframleiðslu varanlega um 3%, minnka hagsveiflur og auka fjármálastöðugleika.
Á þessari málstofu verður farið yfir tæknilegar- og efnahagslegar forsendur Bitcoin og kynnt líkan sem lýsir efnahagslegum hvötum þess. Þá verða valdar niðurstöður rannsókna um hagfræðileg áhrif af upptöku þjóðargjaldmiðla á þessu formi ræddar auk þeirra áskorana sem seðlabankar standa frammi fyrir ef þeir vilja hagnýta þessa nýju tækni.