logo-for-printing

10. apríl 2017

Úttekt Lagastofnunar á framkvæmd gjaldeyriseftirlits, undanþágubeiðna og gjaldeyrisrannsókna

Bygging Seðlabanka Íslands

Í kjölfar bréfs umboðsmanns Alþingis til bankaráðs Seðlabanka Íslands, dags. 2. október 2015, samþykkti bankaráðið að óska eftir því að Lagastofnun Háskóla Íslands yrði fengin til að gera óháða úttekt, með hliðsjón af gildandi lögum og reglum á hverjum tíma, á stjórnsýslu Seðlabankans við framkvæmd gjaldeyriseftirlits, undanþágubeiðna og gjaldeyrisrannsókna. Bankaráðið fór þess á leit við Lagastofnun að skoðað yrði hvort ástæða væri til þess að skýra æskilegt verksvið og lagaheimildir bankans á þessum sviðum og að gerðar yrðu tillögur til úrbóta eftir því sem þörf krefði.

Til þess að öðlast innsýn í framkvæmdina skoðaði Lagastofnun mál sem voru til meðferðar hjá undanþágudeild og rannsóknardeild gjaldeyriseftirlits og voru þau valin með slembiúrtaki. Einnig var skoðað lítið úrtak staðfestingarmála og mála vegna nýfjárfestinga sem voru til meðferðar hjá eftirlitsdeild. Úttektin miðaði fyrst og fremst að því að skoða meðferð þessara mála, en í úrtakinu voru alls 94 undanþágumál og 48 rannsóknarmál.

Lagastofnun skilaði úttektinni 26. október síðastliðinn. Í henni koma fram margar gagnlegar ábendingar. Samantekt yfir helstu niðurstöður Lagastofnunar má finna á bls. 13-17 í úttektinni. Bankaráð Seðlabankans hefur farið yfir öll framangreind gögn, og fjallað ítarlega um þau á fundum sínum. Þá hefur úttektin verið send yfirstjórn bankans. Þegar hefur verið brugðist við mörgum athugasemdum Lagastofnunar og er innleiðing annarra í farvegi innan bankans. Niðurstaða bankaráðs er að úttekt Lagastofnunar gefi að óbreyttu ekki tilefni til að aðhafast frekar í þessu máli.

Á fundi bankaráðs 16. mars 2017 var ákveðið að birta úttekt Lagastofnunar með nauðsynlegum útstrikunum til að gæta að þagnarskyldu sem gildir um málefni bankans, auk þess sem allar persónugreinanlegar upplýsingar voru afmáðar.

Úttekt Lagastofnunar er aðgengileg hér.

Til baka