Fundur fjármálastöðugleikaráðs
Fjármálastöðugleikaráð kom saman fimmtudaginn 6. apríl sl. í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Fjallað var um áhættur í fjármálakerfinu og horfur í þjóðarbúskapnum.
Ákveðið var að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að halda sveiflujöfnunarauka á innlendar áhættuskuldbindingar allra fjármálafyrirtækja óbreyttum við 1,25%. Fjármálasveiflan hefur haldið áfram að rísa með svipuðum hraða og áætlað var á síðasta fundi kerfisáhættunefndar. Þess má vænta að fjármálastöðugleikaráð muni leggja til að uppbyggingu sveiflujöfnunaraukans verði haldið áfram á næstu misserum í takt við ris fjármálasveiflunnar.
Samþykkt var á grundvelli greiningar kerfisáhættunefndar að Íbúðalánasjóður, Arion banki hf., Landsbankinn hf. og Íslandsbanki hf. teldust áfram kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar og að eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, þ.e. bankana þrjá, skyldi vera óbreyttur, eða 2%. Tilmæli þess efnis voru send Fjármálaeftirlitinu í kjölfar fundarins.
Næsti fundur fjármálastöðugleikaráðs verður haldinn 20. júní nk.
Nánari upplýsingar um fundinn er að finna á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.