logo-for-printing

02. júní 2017

Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins á fyrsta ársfjórðungi 2017

Bygging Seðlabanka Íslands

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 11,1 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2017 samanborið við 44,6 ma.kr. fjórðunginn á undan. Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um 35,1 ma.kr. en þjónustujöfnuður hagstæður um 43,1 ma.kr. Jöfnuður frumþáttatekna var hagstæður um 8,7 ma.kr. en rekstrarframlög óhagstæð um 5,5 ma.kr.

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð á fyrsta ársfjórðungi 2017 og stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Samkvæmt bráðabirgðayfirlitinu námu erlendar eignir þjóðarbúsins 3.909 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.817 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 91 ma.kr. eða sem nam 3,7% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 48 ma.kr. eða sem nam 2% af VLF, á milli ársfjórðunga. Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 19 ma.kr. Skuldir lækkuðu um 74 ma.kr. og erlendar eignir um 56 ma.kr. vegna fjármagnsviðskiptanna. Gengis- og verðbreytingar höfðu jákvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins um 41 ma.kr. Munar þar mest um verðhækkun á erlendri verðbréfaeign á ársfjórðungnum. Gengi krónunnar lækkaði gagnvart helstu gjaldmiðlum eða um 1,3% miðað við gengisskráningarvog.

Sjá hér fréttina í heild með töflum: Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins á fyrsta ársfjórðungi 2017

 

Frétt nr. 17/2017
2. júní 2017

Til baka