Yfirlýsing peningastefnunefndar 16. maí 2018
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25%.
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í maíhefti Peningamála eru horfur á að hagvöxtur verði aðeins minni í ár en í fyrra. Fer þar saman hægari vöxtur útflutnings og minni vöxtur innlendrar eftirspurnar. Þetta er áþekkur hagvöxtur og gert var ráð fyrir í febrúarspá bankans og líkt og þá er talið að hann minnki frekar á næstu tveimur árum.
Verðbólga var 2,5% á fyrsta fjórðungi ársins og 2,3% í apríl. Undirliggjandi verðbólga er á svipuðu róli. Verðbólga hefur því í stórum dráttum verið í samræmi við 2½% verðbólgumarkmið Seðlabankans síðustu mánuði. Áfram hefur dregið úr árshækkun húsnæðisverðs en gagnstæð áhrif gengisbreytinga krónunnar á verðbólguna hafa dvínað. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram á næstunni. Gengi krónunnar er nær óbreytt frá síðasta fundi peningastefnunefndar og gjaldeyrismarkaðurinn hefur áfram verið í ágætu jafnvægi. Hvorki verðbólguhorfur né verðbólguvæntingar hafa breyst að neinu marki frá síðasta fundi nefndarinnar.
Horfur eru á minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum. Eigi að síður er áfram þörf fyrir peningalegt aðhald til að halda aftur af örum vexti innlendrar eftirspurnar. Dregið hefur úr hættu á ósjálfbærum launahækkunum til skamms tíma litið en undirliggjandi spenna á vinnumarkaði er enn til staðar.
No. 6/2018
16. maí 2018
Vextir verða því sem hér segir:
1. Daglán: 6,00%
2. Lán gegn veði í verðbréfum: 5,00%
3. Innlán bundin í 7 daga: 4,25%
4. Viðskiptareikningar: 4,00%
5. Bindiskyldar innstæður: 4,00%