Yfirlýsing peningastefnunefndar 13. júní 2018
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25%.
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum þjóðhagsreikninga sem Hagstofa Íslands birti nýlega var hagvöxtur á fyrsta fjórðungi ársins 6,6% sem er töluvert meiri vöxtur en mældist á seinni hluta síðasta árs. Þetta er aðeins meiri vöxtur en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í maí en í meginatriðum er þróunin í samræmi við spá bankans. Áfram eru því horfur á að dragi úr hagvexti á árinu með hægari vexti útflutnings og innlendrar eftirspurnar. Þróun íbúðaverðs og vísbendingar af vinnumarkaði benda í sömu átt.
Verðbólga hjaðnaði í 2% í maí en undanfarna mánuði hefur bæði mæld og undirliggjandi verðbólga verið í grennd við 2½% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Áfram dregur úr árshækkun húsnæðisverðs en gagnstæð áhrif gengisbreytinga krónunnar á verðbólguna hafa dvínað. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram á næstunni. Gengi krónunnar hefur lækkað aðeins frá síðasta fundi peningastefnunefndar en gjaldeyrismarkaðurinn hefur áfram verið í ágætu jafnvægi. Verðbólguvæntingar virðast á heildina litið í ágætu samræmi við verðbólgumarkmið bankans.
Horfur eru á minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum. Eigi að síður er áfram þörf fyrir peningalegt aðhald í ljósi mikils vaxtar innlendrar eftirspurnar og undirliggjandi spennu á vinnumarkaði.
Vextir verða því sem hér segir:
1. Daglán: 6,00%
2. Lán gegn veði í verðbréfum: 5,00%
3. Innlán bundin í 7 daga: 4,25%
4. Viðskiptareikningar: 4,00%
5. Bindiskyldar innstæður: 4,00%
Nr. 10/2018
13. júní 2018