Ný rannsóknarritgerð um mælikvarða á undirliggjandi verðbólgu
Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerð um nýjan mælikvarða á undirliggjandi verðbólgu. Ritgerðin er á ensku og er gefin út í ritgerðarröðinni Rannsóknarritgerðir (Working Papers).
Nýlega hafa Seðlabankar Kanada og Noregs kynnt til sögunnar nýja mælikvarða á undirliggjandi verðbólgu sem byggja á einföldu þáttalíkani. Samskonar mælikvarði var búinn til fyrir íslenska verðþróun undir heitinu sameiginlegur þáttur vísitölu neysluverðs. Heitið vísar í hlutverk mælikvarðans að finna sameiginlegan þátt undirvísitalna til að meta undirliggjandi verðbólgu með því að skilja frá sértækar verðbreytingar einstakra undirliða.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hlutdeild verðbreytinga í undirvísitölunum sem skýra megi með sameiginlega þættinum hafi lækkað en vægi hlutfallslegra verðbreytinga aukist á móti. Einnig er sýnt að mælikvarðinn hafi ýmsa góða eiginleika sem æskilegt er að mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu hafi.
Sjá ritið hér: The common component of the CPI: A trendy measure of Icelandic underlying inflation, eftir Aðalheiði Ósk Guðlaugsdóttur og Lilju Sólveigu Kro.