logo-for-printing

07. desember 2018

Fitch staðfestir óbreytta A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með stöðugum horfum

Bygging Seðlabanka Íslands

Matsfyrirtækið Fitch staðfesti í dag óbreytta lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldir í erlendum gjaldmiðli sem A með stöðugum horfum. Samkvæmt matsfyrirtækinu endurspeglar þessi einkunn annars vegar háar þjóðartekjur, sterkar stofnanir, góð lífskjör og gott viðskiptaumhverfi og hins vegar að hagkerfið reiðir sig í miklum mæli á hrávöruútflutning og er næmt fyrir ytri áföllum auk fyrri reynslu af efnahags- og fjármálasveiflum.

Stöðugar horfur endurspegla að matsfyrirtækið telur jafnvægi ríkja í lánshæfiseinkunninni. Áframhaldandi styrking ytri stöðu þjóðarbúsins og aukin geta til að mæta ytri áföllum gæti leitt til hækkunar. Á móti gætu eftirfarandi þættir leitt til lækkunar: vísbendingar um ofhitnun í hagkerfinu, m.a. í formi víxlverkunar verðlags og launa, verðbólguskots og neikvæðar afleiðingar þess fyrir efnahagsreikninga hins opinbera, heimila og fyrirtækja. Einnig gæti mikið útflæði fjármagns sem hefði í för með sér ytra ójafnvægi og þrýsting á gengi krónunnar valdið lækkun lánshæfismatsins.

Sjá hér frétt FitchRatings: Fitch Affirms Iceland at 'A'; Outlook Stable.

Til baka