logo-for-printing

11. febrúar 2019

Fjölmenni sá gull og gersemar í Seðlabankanum á Safnanótt

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Það var stöðugur straumur fólks í Seðlabankann á föstudagskvöldið þegar bankinn tók þátt í Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu og sýndi m.a. gullstöng, sérstaklega valin málverk eftir öndvegis listmálara, bauka, bankabækur og fleira tengt sparnaði. Alls mættu um 2.200 manns í bankann og það var stöðug biðröð áhugasamra á öllum aldri eftir því að fá að handleika og lyfta gullstönginni sem vegur 12,4 kílógrömm og er að andvirði um 63 milljónir króna. Einnig sýndu gestir málverkum bankans mikla athygli, en meðal verka voru málverk eftir Jóhannes Kjarval, Ásgrím Jónsson, Louisu Matthíasdóttur og Gunnlaug Blöndal, þar á meðal tvær umtalaðar konumyndir eftir Gunnlaug. Ekki var annað að sjá en að fólk skemmti sér hið besta og nyti vel þess sem boðið var upp á. Seðlabankinn þakkar öllum þeim sem heimsóttu bankann á Safnanótt.

Með þessari frétt má sjá nokkrar myndir sem teknar voru á Safnanótt í Seðlabankanum síðastliðið föstudagskvöld, meðal annars af því þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra færði Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns forláta bauk og bankabók frá æsku hennar.

Til baka

Myndir með frétt

Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri, Ágústa Johnsen, fyrrverandi ritari seðlabankastjóra, Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Håkan Juholt, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur), prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands.