logo-for-printing

12. apríl 2019

Málstofa: Fjármálasveiflur á Norðurlöndunum

Bygging Seðlabanka Íslands
Málstofa um fjármálasveiflur á Norðurlöndunum var haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, föstudaginn 12. apríl kl. 15:00.

Frummælendur: Önundur Páll Ragnarsson sérfræðingur á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og Loftur Hreinsson sérfræðingur í þjóðhagsvarúðardeild FME.

Ágrip: Á málstofunni voru kynntar niðurstöður nýrrar rannsóknarritgerðar eftir þá Loft, Önund og Jón Magnús Hannesson, sérfræðing á fjármálastöðugleikasviði SÍ. Í ritgerðinni eru skoðaðar aðferðir við rauntímamat á fjármálasveiflum í þeim tilgangi að segja tímanlega fyrir um yfirvofandi fjármálaóstöðugleika. Rannsóknin var framkvæmd með gögnum frá Norðurlöndunum sem ná allt að 7 áratugi aftur í tímann. Tímabilið sem úrtakið nær til inniheldur níu kerfislegar fjármálakreppur og álagstímabil.

Rannsóknin leiðir meðal annars í ljós að gagnlegt geti verið að taka fjölbreyttar upplýsingar inn í samsettan mælikvarða á fjármálasveiflur. Samsettir mælikvarðar geti staðið sig betur en þeir sem byggja aðeins á einni breytu. Auk greiningar á niðurstöðum verður rætt um helstu lærdóma sem draga má af rannsókninni. Til dæmis benda niðurstöðurnar til þess að sveiflur húsnæðisverðs hafi allt að helmingi styttri sveiflulengd en sveiflur í skuldum heimila og fyrirtækja.
Til baka