Fyrsti fundur nýstofnaðs greiðsluráðs
Nýstofnað greiðsluráð á vegum Seðlabanka Íslands hélt sinn fyrsta fund þriðjudaginn 23. apríl 2019. Greiðsluráð er samráðsvettvangur stjórnvalda, markaðsaðila og annarra hagsmunaaðila um málefni greiðslumiðlunar og fjármálainnviða. Markmið ráðsins er að stuðla að viðeigandi undirbyggingu stefnumótunar í málaflokknum hér á landi með sjónarmið um öryggi, virkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Seðlabankinn annast undirbúning funda og seðlabankastjóri stýrir fundunum. Allt efni tengt greiðsluráði verður birt á heimasíðu bankans fljótlega eftir hvern fund.
Fulltrúar eftirtalinna aðila sóttu fyrsta fundinn: Fjármálaeftirlits, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Neytendastofu, Neytendasamtakanna, Reiknistofu bankanna hf., Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Viðskiptaráðs Íslands. Auk þess sátu fundinn nokkrir starfsmenn Seðlabankans.
Á fundinum var farið yfir markmið og fyrirkomulag starfsins framundan og rætt um þá grósku sem á sér stað í greiðslumiðlun. Af hálfu Seðlabankans var farið yfir stöðu íslenskrar smágreiðslumiðlunar og voru sérrit bankans sem komu út sl. haust kynnt, annars vegar Smágreiðslumiðlun frá sjónarhóli viðbúnaðar og fjármálastöðugleika og hins vegar Rafkróna?. Fyrirhugað er að næsti fundur greiðsluráðs verði eftir um það bil sex mánuði.
Fundargerð frá fundinum og fleiri gögn verða birt fljótlega á sérstöku svæði á vef Seðlabanka Íslands.
Nánari upplýsingar veita Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Guðmundur Kr. Tómasson, framkvæmdastjóri fjármálainnviða Seðlabanka Íslands, í síma 569-9600.
Frétt nr. 8/2019
29. apríl 2019