Breytingar á reglum um veðhæf bréf
Seðlabanki Íslands hefur gefið út reglur um breytingu á reglum nr. 553/2009 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Tilgangurinn er meðal annars sá að fjölga möguleikum fjármálafyrirtækja að leggja fram tryggingarhæfar eignir vegna viðskipta við Seðlabankann. Í þessu felst aðallega breyting á 11. gr. reglna 553/2009 sem kveður á um fjárhagslegar tryggingaráðstafanir í viðskiptum við Seðlabankann, með því að sértryggð skuldabréf verða nú hæf til tryggingar.
Sértryggð skuldabréf (e. covered bonds) verða hæf til tryggingar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Um er að ræða skuldabréf sem eru tryggð með eignum, í þessu tilfelli húsnæðislánum einstaklinga í íslenskum krónum. Um útgáfur sértryggðra skuldabréfa hér á landi gilda lög nr. 11/2008 og reglur sem settar eru af Fjármálaeftirlitinu. Í þeim er meðal annars kveðið á um eftirlit með sértryggðum skuldabréfum og að virði undirliggjandi veða rýrni ekki.
Seðlabankinn setur þau skilyrði að skuldabréfin hafi viðskiptavakt og að 5 ma.kr. að minnsta kosti hafi selst af útistandandi flokkum að markaðsvirði. Þess má geta að erlendir seðlabankar sem Seðlabanki Íslands ber sig saman við, svo sem þeir norrænu, heimila sértryggð skuldabréf í viðskiptum við mótaðila.
Seðlabankinn hefur ekki veitt viðskiptaaðilum sínum lán í reglubundnum markaðsviðskiptum undanfarin ár. Engu að síður er nauðsynlegt að Seðlabankinn gefi til kynna hvaða tryggingar bankinn metur hæfar komi til þess að lánað verði á ný. Veðhæf verðbréf í viðskiptum við Seðlabankann hafa undanfarinn áratug fyrst og fremst verið skuldabréf gefin út af ríkissjóði, með ríkisábyrgð og bundin innlán í Seðlabankanum. Útgáfa verðbréfa ríkissjóðs hefur dregist saman á undanförnum árum og stórir flokkar líkt og íbúðabréf eru að miklu leyti í eigu sjóða. Stóru viðskiptabankarnir þrír hafa gefið út sértryggð skuldabréf á síðast liðnum árum og eru nú um 400 ma.kr. útistandandi af þessum skuldabréfum á markaði.
Önnur breyting sem gerð var á reglunum er sú að ekki er lengur hægt að nota eiginfjárloforð eða eiginfjárframlög sem tryggingu í viðskiptum við Seðlabanka Íslands.
Nr. 11/2019
27. maí 2019
Reglur um breytingu á reglum nr. 553/2009 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands.